Skólasókn og samstarf við foreldra leikskólabarna með fjölbreyttan bakgrunn á tímum COVID-19
##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.19Lykilorð:
skólasókn, leikskólabörn, erlendur bakgrunnur, COVID-19, samstarf við foreldraÚtdráttur
Í því skyni að hamla útbreiðslu COVID-19 var gripið til þess ráðs í fyrstu bylgju faraldursins að setja hömlur á fjölda þeirra sem máttu dvelja í sama rými. Starfsemi leikskóla þurfti að laga að þessum veruleika með tilheyrandi tímatakmörkunum og fækkun viðverudaga. Þó að slík ráðstöfun geti reynst brýn hafa rannsóknir sýnt að skólalokanir og skerðing á skólasókn getur haft neikvæð áhrif á nám, líðan og félagsleg tengsl barna. Sérstaklega á það við um börn í viðkvæmri stöðu. Rannsóknin sem hér er kynnt beinist að skólasókn fjölbreyttra barnahópa í leikskólum og samskiptum starfsfólks leikskóla við foreldra á tímum COVID-19. Unnið var úr spurningakönnun sem Menntavísindastofnun Háskóla Íslands stóð fyrir og send var á netföng 248 leikskóla auk þess sem tekin voru rýnihópaviðtöl við starfsfólk sex leikskóla. Niðurstöður sýna mikla takmörkun á leikskólahaldi í fyrstu bylgju COVID-19 og skerðingu á viðveru barna. Gera þurfti margvíslegar breytingar á verkefnum og viðfangsefnum barnanna, rólegra var í leikskólanum en mörg barnanna söknuðu vina sinna. Fram kom að börn af erlendum uppruna sóttu síður leikskóla en önnur börn á tímabilinu og að sumir foreldrar fóru frekar eftir upplýsingum frá upprunalandi sínu en leiðbeiningum íslenskra sóttvarnayfirvalda. Rannsóknin sýnir að brýnt er að standa betur að upplýsingagjöf til foreldra af erlendum uppruna. Samstarf starfsfólksins við fjölskyldur leikskólabarna tók breytingum. Dagleg samskipti starfsfólksins sem vann með börnunum skertust verulega og þátttaka foreldra í leikskólastarfinu minnkaði. Gæði í leikskólastarfi eru m.a. háð vel menntuðu starfsfólki sem myndar traust tengsl við hvert barn, starfsháttum þar sem skipulegt starf og leikur fléttast saman og samvinnu við fjölskyldur barnanna. Auk þess er leikskólinn mikilvægur lýðræðislegur vettvangur þar sem fjölbreyttir barnahópar starfa saman. Þær ályktanir má draga af niðurstöðum rannsóknarinnar að breytingar á starfsháttum leikskóla sem lokanir og skerðing á skólasókn hafa í för með sér geti haft áhrif á bæði menntunar- og samfélagslegt hlutverk leikskólans.Niðurhal
Útgefið
2021-02-18
Tölublað
Kafli
Ritrýndar greinar