Táknræn eða raunveruleg þátttaka grunnskólabarna: Sýn barna á réttindi og lýðræðislega þátttöku í skóla

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2023.2

Lykilorð:

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, réttindi barna, þátttaka barna, réttindaskóli, lýðræði

Útdráttur

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er alþjóðlegur mannréttindasamningur sem snertir börn. Sáttmálinn felur í sér viðurkenningu á að börn þarfnist sérstakrar verndar umfram fullorðna og á að tryggja börnum vernd gegn ofbeldi, tækifæri og áhrifamátt. Fræðimenn telja að sá réttur barna sem eigi hvað mest undir högg að sækja varði lýðræðisákvæði hans. Meðal annars er algengt að ákvarðanir sem tengjast málefnum barna séu teknar án samráðs við þau. Síaukin áhersla er lögð á réttindi og þátttöku barna en til að tryggja réttindi þeirra í samræmi við sáttmálann er mikilvægt að allir; börn og fullorðnir, þekki til hans. Fyrir árið 2030 eiga öll sveitarfélög hér á landi að hafa hafið markvissa innleiðingu Barnasáttmálans og er ein leið til þess að nýta hugmyndafræði svonefnds réttindaskóla. Samkvæmt rannsóknum getur innleiðing sáttmálans haft jákvæð áhrif á skólastarf í heild sinni og aukið þekkingu barna á réttindum sínum. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á reynslu og þekkingu barna á lýðræðislegri þátttöku og ávinning af fræðslu í skólum um Barnasáttmálann. Tekin voru rýnihópaviðtöl við 43 börn úr 4. og 8. bekk fjögurra skóla á Akureyri og í Eyjafjarðarsveit. Helstu niðurstöður sýna að þátttakendur virðast kunna skil á innihaldi þeirra réttinda sem Barnasáttmálinn veitir og er skilningur þeirra almennt góður. Börn í réttindaskóla höfðu fengið meiri fræðslu sem skilaði sér í auknum skilningi. Þrátt fyrir góða viðleitni í skólastarfi til að auka þátttöku nemenda í ákvörðunum virtist hún í sumum tilfellum einungis fela í sér táknræna þátttöku þeirra. Álykta má að fræðsla sé forsenda þess að innleiðing Barnasáttmálans njóti velgengni og er von okkar að þessi rannsókn stuðli að jákvæðara viðhorfi til skoðana og þátttöku barna.

Um höfund (biographies)

Elín Helga Björnsdóttir

Elín Helga Björnsdóttir (elinhelgab@gmail.com) lauk BA-gráðu í félagsvísindum árið 2019 og MA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði árið 2021. Elín Helga hefur starfað innan frístundargeirans þar sem hún hóf innleiðingu Barnasáttmálans en starfar nú sem verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags í Hafnarfirði. Greinin er unnin upp úr meistararitgerð Elínar Helgu.

Eyrún María Rúnarsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Eyrún María Rúnarsdóttir (emr@hi.is) er lektor í uppeldis- og menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar beinast að börnum og unglingum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, líðan þeirra, vinatengslum og félagslegum stuðningi frá vinum og foreldrum. Eyrún lauk BA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði árið 1996 og meistaragráðu í sömu grein árið 2002 frá Háskóla Íslands. Þá lauk hún doktorsgráðu frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands árið 2019. Eyrún leiðbeindi Elínu Helgu í meistaraverkefni hennar sem var grunnur þessarar greinar.

Guðrún Kristinsdóttir

Guðrún Kristinsdóttir (gkristd@hi.is) er prófessor emerita og starfar við rannsóknir á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Sérsvið eru eigindleg aðferðafræði rannsókna, börn og samfélag, bernskufræði, gagnrýnin kynjafræði, ofbeldi gegn börnum og fjölskyldum í nánum samböndum, m.a. ofbeldi karla gegn konum. Hún hefur einnig skrifað um þátttöku barna í rannsóknum. Guðrún leiðbeindi Elínu Helgu í meistaraverkefni hennar sem var grunnur þessarar greinar.

Niðurhal

Útgefið

2023-02-16

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)