Sjónarmið leikskólakennara og leiðbeinenda - Áherslur og verkaskipting í leikskólastarfi

Höfundar

  • Jóhanna Einarsdóttir
  • Arna H. Jónsdóttir
  • Bryndís Garðarsdóttir

Lykilorð:

leikskólar, leikskólakennarar, fagmennska, leiðbeinendur

Útdráttur


Markmiðið með þeirri rannsókn, sem hér er kynnt, er að skoða sýn, hlutverk og starfshætti leikskólakennara og leiðbeinenda. Rannsóknin er samvinnuverkefni milli Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Háskólans í Volda og Háskólans í Ósló. Gögnum fyrir íslenskan hluta rannsóknarinnar var safnað með spurningakönnun sem send var í alla leikskóla hér á landi veturinn 2011–2012. Í þessari grein er leitast við að varpa ljósi á hvort munur er á því hvernig leikskólakennarar annars vegar og leiðbeinendur hins vegar lýsa áherslum sínum og daglegum verkum í leikskólanum. Niðurstöður leiða í ljós að óljós verkaskipting virðist vera milli leikskólakennara og leiðbeinenda í íslenskum leikskólum hvað varðar dagleg störf. Báðir hópar segjast sinna jafnt daglegri umönnun barnanna og taka þátt í leik þeirra og hreyfingu. Báðir hópar segjast leggja mikla áherslu á virka þátttöku, tjáningu, félagsfærni, leik og uppeldi barnanna. Hins vegar sögðust fleiri leikskólakennarar en leiðbeinendur leggja áherslu á nám og afmarkaða þætti tengda námssviðum leikskólans. Það sem einkum greindi hópana að voru samskipti við foreldra og umönnun og menntun barna með sérþarfir sem leikskólakennarar báru á ábyrgð í ríkari mæli. Niðurstöður eru ræddar í ljósi fagmennsku leikskólakennara og menntastefnu sem sett er fram í Aðalnámskrá leikskóla.

Um höfund (biographies)

Jóhanna Einarsdóttir

Jóhanna Einarsdóttir (joein@hi.is) er sviðsforseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og prófessor í menntunarfræðum. Hún hefur stundað rannsóknir í leik og grunnskólum um árabil og ritað fjölda fræðigreina og bóka um efnið. Hún stofnaði Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna árið 2007. Sérsvið hennar eru rannsóknir með börnum, samfella í námi barna, og nám og vellíðan barna í leikskólum. Hún er þátttakandi í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum bæði sem rannsakandi og ráðgjafi. Hún situr í stjórn European Early Childhood Research Association.

Arna H. Jónsdóttir

Arna H. Jónsdóttir (arnahj@hi.is) lauk doktorsprófi í menntunarfræðum frá Institute of Education, University of London. Hún er lektor á sviði leikskólafræði og menntastjórnunar og formaður námsbrautar um menntun ungra barna í leik og grunnskólum. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að fagmennsku og forystu leikskólakennara og stjórnenda í leikskólum. Höfundur hefur umsjón með rannsókn á fagmennsku leikskólakennara á vegum Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna, er þátttakandi í rannsóknarverkefni fimm landa um samfellu í menntun barna (POET) og í rannsóknarverkefni á vegum Rannsóknarstofu um menntastjórnun, nýsköpun og mat um áhrif kreppu á skólastarf á öllum skólastigum.

Bryndís Garðarsdóttir

Bryndís Garðarsdóttir (bryngar@hi.is)er lektor í leikskólafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar beinast einkum að menntunarfræði ungra barna og hlutverki leikskólakennara í að skipuleggja og tengja leik og nám barna í leikskóla. Hún hefur tekið þátt í sameiginlegum rannsóknarverkefnum á vegum Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) um samfellu í námi barna, notkun námssagna í leikskólastarfi, tengsl leiks og náms og fagmennsku leikskólakennara.

Niðurhal

Útgefið

2016-12-03

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar