„Þeir leika saman og eru glaðir, það er bara svo gott“: Félagsleg tengsl og vinátta leikskólabarna af erlendum uppruna

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.35

Lykilorð:

börn af erlendum uppruna, skáli án aðgreiningar, vinátta, leikskóli, félagsleg tengsl, skóli án aðgreiningar

Útdráttur

Niðurstöður rannsókna benda til þess að vina- og félagatengsl grunnskólabarna og unglinga af erlendum uppruna séu brothættari en tengsl sem íslenskir félagar þeirra njóta. Á leikskólastiginu skortir sambærilegar rannsóknir en þar er viðurkennt að samskipti barna og frjáls leikur sé einn þýðingarmesti þáttur námsins. Markmið eigindlegrar rannsóknar sem hér er kynnt er að skyggnast í samskipti, leik og vinatengsl leikskólabarna af erlendum uppruna. Rannsóknin var gerð í leikskóla í sjávarbyggð. Alls tóku 21 barn af einni leikskóladeild þátt í rannsókninni en lykilþátttakendur voru fjögur 5-6 ára gömul börn, tvær stúlkur og tveir drengir. Tvö þeirra áttu tælenska foreldra og tvö áttu pólska foreldra. Gögnum var safnað með hópviðtölum, paraviðtölum og einstaklingsviðtölum, myndbandsupptökum og vettvangsathugunum. Að auki teiknuðu börnin myndir af vinum sínum og tóku ljósmyndir í leikskólastarfinu. Félagsleg staða barnanna fjögurra reyndist viðkvæm en þó nutu þau flest gagnkvæmrar vináttu. Takmörkuð færni í íslensku og fá tækifæri til samskipta utan leikskóla höfðu hamlandi áhrif á félagsleg tengsl þeirra innan barnahópsins og fram komu dæmi um höfnun og útilokun. Niðurstöður benda til að stuðningur leikskólakennara í samskiptum þeirra við önnur börn hefði getað tryggt betur virka þátttöku þeirra í skólastarfinu. Í þessu skyni er mikilvægt að þekkja aðferðir barnanna til að komast inn í leik og stofna til kynna. Skerpa mætti jafnframt hlutverk skólans og kennara við að styðja og leiðbeina foreldrum barna af erlendum uppruna og hvetja þannig til aukinna tengsla við önnur börn í leikskólanum. Markmiðum skóla án aðgreiningar verður aðeins náð ef öll börn hafa jafnan aðgang að lærdómsferli leikskólans.

Um höfund (biographies)

Eyrún María Rúnarsdóttir

Eyrún María Rúnarsdóttir (emr@hi.is) starfar sem aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og og varði doktorsverkefni sitt frá sama sviði árið 2019. Rannsóknir hennar fjalla um unglinga af erlendum uppruna, líðan þeirra, vinatengsl og félagslegan stuðning frá vinum og foreldrum. Eyrún lauk BA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði árið 1996 og meistaragráðu í sömu grein árið 2002 frá Háskóla Íslands.

Svava Rán Valgeirsdóttir

Svava Rán Valgeirsdóttir (svavava@simnet.is) er leikskólakennari og útskrifaðist úr Fósturskóla Íslands 1992. Hún lauk diplómu í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á sérkennslufræði árið 2002 og M.Ed-gráðu í sömu grein árið 2016 frá Háskóla Íslands. Svava Rán hefur starfað sem leikskólastjóri og leikskólakennari frá því hún útskrifaðist 1992. Greinin byggist á lokaverkefni Svövu Ránar í meistaranáminu og var Eyrún María Rúnarsdóttir leiðbeinandi hennar.

Niðurhal

Útgefið

2020-02-11