Félags- og tilfinningahæfni: Lykill að farsæld barna

Um þróunarverkefni í fimm leikskólum

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2024/12

Lykilorð:

leikskóli, leikur, leikskólakennari, félags- og tilfinningahæfni, skráningar

Útdráttur

Félags- og tilfinningahæfni er mikilvægur þáttur í menntun leikskólabarna og undirstaða frekara náms og þátttöku í lýðræðissamfélagi. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig starfsfólk leikskóla þróaði leiðir til að styðja við félags- og tilfinningalegt nám barna í leik og daglegu starfi og hlúa að vináttu þeirra og samskiptum. Tilgangurinn var að varpa ljósi á hvernig hægt sé að styðja við félags- og tilfinningahæfni barna í leik og daglegu starfi í leikskólum. Þróunarverkefni fór fram í fimm leikskólum í einu sveitarfélagi. Tekin voru rýnihópaviðtöl við leikskólastjórnendur í upphafi og lok þróunarverkefnisins.

Niðurstöður sýna að stjórnendur leikskólanna töldu mikilvægt að styðja við félags- og tilfinninganám barna í gegnum leik og daglegt starf, vera til staðar í leiknum, fylgjast með honum og styðja við samskipti barnanna í leiknum. Þrátt fyrir þessi viðhorf og þekkingu leikskólastjórnendanna reyndist erfitt að koma þessu í framkvæmd. Þróunarverkefnið virtist einnig hafa takmörkuð áhrif til breytinga varðandi leikjaskráningar, þrátt fyrir aukna áherslu á þann þátt í verkefninu. Hins vegar gerði starfsfólkið ýmsar breytingar á rými og skipulagi leikskólanna sem höfðu jákvæð áhrif á félags- og tilfinninganám barnanna. Áhugi stjórnenda leikskólanna á auknum tengslum og stuðningi við foreldra jókst einnig meðan á verkefninu stóð og voru áform um að efla þann þátt enn frekar með námskeiðum og fræðslu fyrir foreldra. Líta má á þróunarverkefnið sem mikilvægt upphaf fyrir þátttakendur til að þróa áfram og innleiða árangursríkar leiðir til að styðja við félags- og tilfinningalegt nám barna. Með áframhaldandi fræðslu og þjálfun starfsfólks, endurskoðun á skipulagi og rými leikskólans og auknu samstarfi við foreldra má stuðla að betri samskiptum, vináttu og vellíðan barna í leikskólum.

Um höfund (biographies)

Anna Magnea Hreinsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Anna Magnea Hreinsdóttir (amh@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún var leikskólastjóri til margra ára, leikskólafulltrúi og fræðslustjóri. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og veitt skólum ráðgjöf. Rannsóknir hennar tengjast forystu og stjórnun, námskrárgerð og innra mati leikskóla með áherslu á lýðræðislega starfshætti. Þá hefur hún lagt áherslu á sjónarmið og þátttöku barna í rannsóknum sínum. Hún er formaður Félags um menntarannsóknir

Jóhanna Einarsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Dr. Jóhanna Einarsdóttir (joein@hi.is) er prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún er einnig heiðursdoktor við Háskólann í Oulu í Finnlandi. Jóhanna hlaut viðurkenningu frá Háskólanum í Illinois fyrir framlag sitt til rannsókna á menntun ungra barna. Sérsvið hennar eru rannsóknir með börnum, samfella í námi barna og starfendarannsóknir. Hún hefur verið þátttakandi í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum bæði sem rannsakandi og ráðgjafi og hefur ritað fjölda fræðigreina í samstarfi við erlenda kollega. Hún situr í stjórn European Early Childhood Education Research Association

Niðurhal

Útgefið

2024-10-23

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)

1 2 > >>