Gildismat og sýn starfsfólks leikskóla á fullgildi í fjölbreyttum barnahópi

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2021.2

Lykilorð:

fullgildi, gildismat starfsfólks leikskóla, börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, starfshættir leikskóla

Útdráttur

Tengsl sem leikskólabörn mynda við önnur börn og kennara sína eru lykilatriði í námi þeirra og vellíðan. Myndist góð tengsl skapast sú tilfinning að tilheyra í leikskólasamfélaginu. Hugtakið fullgildi vísar til þátttöku, félagslegra tengsla og þeirrar tilfinningar að tilheyra. Rannsóknir sýna að börn af erlendum uppruna geta orðið utanveltu í jafningjahópi og að stuðningur starfsfólks getur skipt sköpum við að stuðla að fullgildi barna með erlendan bakgrunn. Markmið rannsóknarinnar sem hér er kynnt var að varpa ljósi á sýn og gildismat starfsfólks leikskóla á fullgildi í leikskólastarfi og valdastöðu barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn í jafningjahópi. Jafnframt var skoðað hvort sýn starfsfólks var ólík eftir menntun þess og starfsreynslu. Gagna var aflað með rafrænum spurningalista sem starfsmenn 143 leikskóla af öllu landinu svöruðu. Um helmingur svarenda var leikskólakennarar og/eða með BA-gráðu, fjórðungur hafði lokið meistaragráðu eða diplómanámi að loknu BA-námi og fjórðungur hafði framhaldsskólapróf eða aðra menntun. Starfsfólkið stefndi almennt að því að öll börn væru fullgildir þátttakendur í barnahópi, að þau væru viðurkennd „eins og þau eru“ og það kaus að hafa foreldra með í ráðum um starfið. Greina mátti meiri trú á hæfni barna til að taka þátt í og stuðla að fullgildi meðal þeirra sem höfðu leikskólakennaramenntun og/eða meistaragráðu og hinir síðarnefndu lögðu jafnframt meiri áherslu á samskipti og leik barna sem leið til fullgildis. Starfsfólkið varð helst vart við að tungumál gæti leitt til útilokunar sumra barna í jafningjahópi og hafði áhyggjur af stöðu barna með annan tungumála- og menningarbakgrunn. Vilji var til að stuðla að fullgildri þátttöku þessa hóps með auknum skilningi og umræðu um fjölbreytileika ásamt áherslu á vinatengsl.

Um höfund (biographies)

Jóhanna Einarsdóttir

Jóhanna Einarsdóttir (joein@hi.is) er prófessor í menntunarfræðum ungra barna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún er einnig heiðursdoktor við Háskólann í Oulu í Finnlandi. Hún hlaut viðurkenningu fyrir framlag sitt til rannsókna á menntun ungra barna frá University of Illinois árið 2018. Hún hefur stundað rannsóknir í leik- og grunnskólum um árabil og ritað fjölda fræðigreina og bóka um efnið. Sérsvið hennar eru rannsóknir með börnum, samfella í námi barna og starfendarannsóknir. Hún er þátttakandi í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, bæði sem rannsakandi og ráðgjafi. Jóhanna situr í stjórn European Early Childhood Education Research Association.

Eyrún María Rúnarsdóttir

Eyrún María Rúnarsdóttir (emr@hi.is) er lektor í uppeldis- og menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar eru á sviði unglingarannsókna og beinast að unglingum af erlendum uppruna, líðan þeirra, vinatengslum og félagslegum stuðningi frá vinum og foreldrum. Eyrún lauk BA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði árið 1996 og meistaragráðu í sömu grein árið 2002 frá Háskóla Íslands. Þá lauk hún doktorsgráðu frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands árið 2019.

Niðurhal

Útgefið

2021-04-12

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar