Þversagnir og kerfisvillur? Kortlagning á ólíkri stöðu bóknáms- og starfsnámsbrauta á framhaldsskólastigi

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.7

Lykilorð:

starfsnám, bóknám, framhaldsskóli, námskrár, kennsluhættir, menntakerfi

Útdráttur

Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt fram á ólíka stöðu bóknáms- og starfsnámsbrauta í framhaldsskólum hvað varðar inntak náms, félagslega virðingu, réttlæti og tækifæri til framhaldsmenntunar. Þetta hefur einnig verið umræðuefni hér á landi í næstum heila öld. Markmið greinarinnar er að skoða hvernig ólík staða bóknámsog starfsnámsbrauta, með tilliti til virðingar, áherslu og forgangs, birtist í íslensku menntakerfi. Umfjöllunin er í þremur meginköflum: (1) Hlutverk og áhrif ytri stýringar – þá er sérstaklega vísað til menntastefnu stjórnvalda, til háskólastigsins og til atvinnulífsins; (2) Umgjörð framhaldsskóla og hvað kann að hafa áhrif á val nemenda; (3) Fyrirkomulag kennslu og mismunandi afstaða kennara. Leitast er við að varpa ljósi á þessa þætti með því að skoða annars vegar námskrár, skýrslur og önnur opinber gögn sem tengjast viðfangsefninu og hins vegar gögn úr rannsókninni Starfshættir í framhaldsskólum. Niðurstöðurnar ber allar að sama brunni: Ólík staða bóknáms- og starfsnáms er bæði kerfislæg og félagsleg og rætur hennar og tilvist er víða að finna. Birtingarmyndir ólíkrar stöðu komu fram í öllum meginköflunum. Stöðumun var að finna í viðhorfum í opinberri menntastefnu, í aðsókn og aðgengi að framhaldsskólanámi, kennsluháttum í framhaldsskólum og tækifærum að námi loknu. Mikilvægt er að skoða niðurstöðurnar í samhengi við jafnrétti til náms, tilgang menntunar og það hvernig ráðandi viðhorf lita stjórnsýslu menntamála, samfélagslega afstöðu og starfshætti í skólum, jafnvel þó að opinber stefnumótun einkennist af hinu gagnstæða og yfirlýst stefna sé að efla starfsnám

Um höfund (biographies)

Elsa Eiríksdóttir

Elsa Eiríksdóttir (elsae@hi.is) er dósent í kennslufræði verk- og starfsmenntunar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1999 og meistara- og doktorsprófi í verkfræðilegri sálfræði frá Georgia Institute of Technology í Atlanta í Bandaríkjunum 2007 og 2011. Rannsóknaráhugi hennar beinist að námi og yfirfærslu, þróun kunnáttu og verk- og starfsmenntun.

Guðrún Ragnarsdóttir

Guðrún Ragnarsdóttir (gudrunr@hi.is) er lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Guðrún er menntaður lífeindafræðingur (BSc) og er með kennsluréttindi á grunnog framhaldsskólastigi. Að auki er hún með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu, meistaragráðu í lýðheilsufræðum og doktorsgráðu í menntavísindum. Guðrún hefur starfað sem framhaldsskólakennari og millistjórnandi í framhaldsskólum. Einnig hefur hún tekið að sér fjölbreytt verkefni á sviði menntunar fyrir Evrópuráðið. Sérsvið hennar er kennslufræði, skólaþróun, starfsþróun og stjórnun skóla.

Jón Torfi Jónasson

Jón Torfi Jónasson (jtj@hi.is) lauk meistarprófi í tilraunasálfræði með áherslu á hugfræði. Hann lauk doktorsprófi frá háskólanum í Reading á Englandi árið 1980. Hann kenndi sálarfræði náms og hugsunar og aðferðafræði og fjölmargar greinar menntavísinda við Háskóla Íslands frá 1977. Hann starfaði sem prófessor í uppeldisog menntunarfræði til 2017, var deildarforseti félagsvísindadeildar HÍ 1995–2001 og forseti menntavísindasviðs HÍ 2008–2013. Hann hefur skrifað um fjölmarga þætti skólakerfisins, m.a. um starfsmenntun (sjá http://uni.hi.is/jtj).

Niðurhal

Útgefið

2020-02-03

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)

1 2 > >>