Fjarkennsla í faraldri: Nám og kennsla í framhaldsskólum á tímum samkomubanns vegna COVID-19

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.25

Lykilorð:

Framhaldsskólakennarar, COVID-19, kennsluhættir, fjarkennsla

Útdráttur

Sú heimskreppa sem orðið hefur vegna COVID-19 faraldursins hefur haft gríðarleg áhrif á starf íslenskra framhaldsskóla. Vegna samkomubanns sem stjórnvöld lýstu yfir færðist allt staðnám á því skólastigi yfir í fjarnám (hér eftir fjarkennsla) á einni helgi. Markmið greinarinnar er að skoða hvernig framhaldsskólakennarar tókust á við nýjan raunveruleika meðan á samkomubanninu stóð, hvernig kennsluhættir breyttust og mat þeirra á námsgengi nemenda. Í greiningunni verður litið sérstaklega til áhrifa skólastærðar og fyrri reynslu kennara af fjarkennslu. Niðurstöðurnar eru byggðar á spurningalistagögnum sem Menntavísindastofnun Háskóla Íslands safnaði á vordögum 2020. Alls svöruðu 680 kennarar listanum. Niðurstöðurnar sýna að framhaldsskólakennurum tókst að bregðast hratt við ástandinu og halda úti kennslu í samkomubanni, þó í breyttri mynd væri. Flestir kennarar réðu að mestu sjálfir hvernig þeir höguðu kennslu sinni og töldu sig ekki fá mikinn stuðning í skólum sínum. Kennsla og námsmat varð einsleitara og kröfur til nemenda breyttust nokkuð. Flestir kennarar sýndu aukinn sveigjanleika og höfðu áhyggjur af slakari mætingu nemenda. Á öllum þessum þáttum var þó merkjanlegur munur eftir skólastærð og einnig hafði fyrri reynsla af fjarkennslu sitt að segja. Greinin er mikilvægt innlegg í umræðu um fyrirkomulag fjarkennslu í neyðarástandi (e. emergency remote teaching) (Bozkurt og Sharma, 2020) og þar er bent á atriði sem brýnt er að líta til við áframhaldandi þróun kennslu og kennsluhátta á framhaldsskólastigi. Greinin sýnir einnig hvers megnug kennarastéttin var í COVID-19 ásamt að þar er bent á flókin úrlausnarefni kennara og tækifæri til umbóta.

Um höfund (biographies)

Súsanna Margrét Gestsdóttir

Súsanna Margrét Gestsdóttir (susmar@hi.is) er aðjúnkt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún er sagnfræðingur og kennari að mennt og hefur starfað við sögukennslu, kennaramenntun og sem stjórnandi í framhaldsskóla. Súsanna hefur verið virkur þátttakandi í alþjóðlegu starfi þeirra sem standa að sögukennslu og menntun sögukennara og er að ljúka doktorsnámi á því sviði við Háskólann í Amsterdam.

Guðrún Ragnarsdóttir

Guðrún Ragnarsdóttir (gudrunr@hi.is) er lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Guðrún er menntaður lífeindafræðingur (BSc) og er með kennsluréttindi á grunnog framhaldsskólastigi. Að auki er hún með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu, meistaragráðu í lýðheilsufræðum og doktorsgráðu í menntavísindum. Guðrún hefur starfað sem framhaldsskólakennari og millistjórnandi í framhaldsskólum. Einnig hefur hún tekið að sér fjölbreytt verkefni á sviði menntunar fyrir Evrópuráðið. Sérsvið hennar er kennslufræði, skólaþróun, starfsþróun, starfstengd leiðsögn og stjórnun skóla.

Amalía Björnsdóttir

Amalía Björnsdóttir (amaliabj@hi.is) er prófessor við deild heilsueflingar, íþrótta- og tómstunda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1991, M.Sc.-prófi frá University of Oklahoma 1994 og doktorsprófi frá sama skóla 1996. Hún hefur lagt stund á rannsóknir á sviði mælinga og prófagerðar, lestrar- og málþroskamælinga, skólastjórnunar og áhrifa félagslegra þátta á skólastarf.

Elsa Eiríksdóttir

Elsa Eiríksdóttir (elsae@hi.is) er dósent í kennslufræði verk- og starfsmenntunar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1999 og meistara- og doktorsprófi í verkfræðilegri sálfræði frá Georgia Institute of Technology í Atlanta í Bandaríkjunum 2007 og 2011. Rannsóknaráhugi hennar beinist að námi og yfirfærslu, þróun kunnáttu, framhaldsskólastiginu og verk- og starfsmenntun.

Niðurhal

Útgefið

2021-02-18

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)

1 2 3 > >>