Stigveldi framhaldsskóla
Frjálst skólaval ýtir undir og endurskapar félagslega lagskiptingu
##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/serritnetla.2024.3Lykilorð:
framhaldsskólaval, stigveldi, félags- og efnahagslegur bakgrunnur nemenda, félagsleg lagskipting, bóknám, starfsnám, inntökuskilyrðiÚtdráttur
Íslensk menntastefna leggur áherslu á jafnrétti til náms og inngildingu. Þrátt fyrir það geta framhaldsskólar sett sín eigin inntökuskilyrði og sumir þeirra velja inn nemendur út frá bóklegri frammistöðu við lok grunnskóla. Hefðbundnir bóknámsskólar hafa sterkari samkeppnisstöðu í vali á nemendum en framhaldsskólar sem bjóða bæði upp á bók- og starfsnám (blandaðir skólar). Markmið rannsóknarinnar er að kortleggja hvort og þá hvernig skóla- og námsleiðaval viðheldur félagslegri lagskiptingu og mismunun í íslensku samfélagi í andstöðu við gildandi menntastefnu. Greind voru áhrif skólavals á samsetningu nemendahópa framhaldsskóla höfuðborgarsvæðisins með tilliti til félags- og efnahagslegs bakgrunns nemenda, fyrra námsgengis í bóklegum greinum og væntinga um háskólanám. Sömu þættir voru skoðaðir meðal nemendahópa eftir því hvort þeir voru í bóknámi eða starfsnámi. Byggt er á gögnum úr langtímarannsókn á nemendum fæddum 1999. Þátttakendur svöruðu spurningalista við lok grunnskólagöngu sinnar árið 2014 (82% af þýði). Í framhaldinu voru upplýsingar um einkunnir á samræmdum prófum í 10. bekk og skráningu í framhaldsskóla tengdar við. Niðurstöðurnar sýna skýrt mynstur skóla- og námsleiðavals sem viðheldur félagslegri lagskiptingu. Sumir framhaldsskólar velja inn nemendur út frá góðum námsárangri í bóklegum greinum og blandaðir skólar eru ekki þar á meðal. Fyrirkomulag inntöku leiðir til ólíkrar samsetningar nemendahópa eftir skólum. Í þeim skólum þar sem valið er úr nemendum er staða hópsins ekki einungis sterkari námslega heldur einnig félags- og efnahagslega auk þess sem hópurinn er líklegri til að stefna á háskólanám. Sambærilegar niðurstöður komu fram eftir námsleiðum þar sem nemendahópar í bóknámi stóðu betur að vígi en nemendur í starfsnámi. Niðurstöðurnar sýna því skýrt stigveldi framhaldsskóla og námsleiða þar sem félagslegri lagskiptingu er viðhaldið af inntökukerfi sem stangast á við yfirlýst markmið íslenskra menntayfirvalda um jafnrétti til náms og inngildingu.
Niðurhal
Útgefið
Tölublað
Kafli
Leyfi
Copyright (c) 2024 Kristjana Stella Blöndal, Elsa Eiríksdóttir, Guðrún Ragnarsdóttir
Greinar í tímaritinu eru gefnar út undir leyfinu (Creative Commons Attribution 4.0 International License).