Stigveldi framhaldsskóla

Frjálst skólaval ýtir undir og endurskapar félagslega lagskiptingu

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2024.3

Lykilorð:

framhaldsskólaval, stigveldi, félags- og efnahagslegur bakgrunnur nemenda, félagsleg lagskipting, bóknám, starfsnám, inntökuskilyrði

Útdráttur

Íslensk menntastefna leggur áherslu á jafnrétti til náms og inngildingu. Þrátt fyrir það geta framhaldsskólar sett sín eigin inntökuskilyrði og sumir þeirra velja inn nemendur út frá bóklegri frammistöðu við lok grunnskóla. Hefðbundnir bóknámsskólar hafa sterkari samkeppnisstöðu í vali á nemendum en framhaldsskólar sem bjóða bæði upp á bók- og starfsnám (blandaðir skólar). Markmið rannsóknarinnar er að kortleggja hvort og þá hvernig skóla- og námsleiðaval viðheldur félagslegri lagskiptingu og mismunun í íslensku samfélagi í andstöðu við gildandi menntastefnu. Greind voru áhrif skólavals á samsetningu nemendahópa framhaldsskóla höfuðborgarsvæðisins með tilliti til félags- og efnahagslegs bakgrunns nemenda, fyrra námsgengis í bóklegum greinum og væntinga um háskólanám. Sömu þættir voru skoðaðir meðal nemendahópa eftir því hvort þeir voru í bóknámi eða starfsnámi. Byggt er á gögnum úr langtímarannsókn á nemendum fæddum 1999. Þátttakendur svöruðu spurningalista við lok grunnskólagöngu sinnar árið 2014 (82% af þýði). Í framhaldinu voru upplýsingar um einkunnir á samræmdum prófum í 10. bekk og skráningu í framhaldsskóla tengdar við. Niðurstöðurnar sýna skýrt mynstur skóla- og námsleiðavals sem viðheldur félagslegri lagskiptingu. Sumir framhaldsskólar velja inn nemendur út frá góðum námsárangri í bóklegum greinum og blandaðir skólar eru ekki þar á meðal. Fyrirkomulag inntöku leiðir til ólíkrar samsetningar nemendahópa eftir skólum. Í þeim skólum þar sem valið er úr nemendum er staða hópsins ekki einungis sterkari námslega heldur einnig félags- og efnahagslega auk þess sem hópurinn er líklegri til að stefna á háskólanám. Sambærilegar niðurstöður komu fram eftir námsleiðum þar sem nemendahópar í bóknámi stóðu betur að vígi en nemendur í starfsnámi. Niðurstöðurnar sýna því skýrt stigveldi framhaldsskóla og námsleiða þar sem félagslegri lagskiptingu er viðhaldið af inntökukerfi sem stangast á við yfirlýst markmið íslenskra menntayfirvalda um jafnrétti til náms og inngildingu.

Um höfund (biographies)

Kristjana Stella Blöndal, Háskóli Íslands - Félagsvísindasvið

Kristjana Stella Blöndal (kb@hi.is) er dósent í framhaldsnámi í náms- og starfsráðgjöf við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún einkum beint sjónum að skuldbindingu nemenda til náms og skóla, náms- og starfsferli ungmenna og brotthvarfi frá námi. Stella notar þverfaglega nálgun og styðst við kenningar á sviði menntunar-, sálar- og félagsfræði. Hún er virkur þátttakandi í alþjóðlegum rannsóknum og hefur unnið náið með menntayfirvöldum í mótun forvarna gegn brotthvarfi nemenda.

Elsa Eiríksdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Elsa Eiríksdóttir (elsae@hi.is) er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1999 og meistara- og doktorsprófi í verkfræðilegri sálfræði frá Georgia Institute of Technology 2007 og 2011. Rannsóknir hennar hafa helst snúið að verk- og starfsmenntun, framhaldsskólastiginu, hugrænni námssálarfræði, þróun kunnáttu og yfirfærslu þekkingar.

Guðrún Ragnarsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Guðrún Ragnarsdóttir (gudrunr@hi.is) er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún er lífeindafræðingur og kennari að mennt. Að auki er hún með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu, MPH-gráðu í lýðheilsufræðum og doktorsgráðu í menntavísindum frá Háskóla Íslands. Guðrún hefur starfað sem millistjórnandi og grunn- og framhaldsskólakennari. Einnig hefur hún tekið að sér fjölbreytt verkefni á sviði menntunar fyrir Evrópuráðið. Rannsóknasvið hennar er kennslufræði, skólaþróun, starfsþróun og stjórnun skóla.

Niðurhal

Útgefið

2024-05-14