Kvika menntabreytinga: Viðbrögð framhaldsskólans við kröfum menntayfirvalda um breytingar

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.5

Lykilorð:

framhaldsskólar, útfærsla og framkvæmd stefnu, menntabreytingar, tregða til breytinga (e. inertia to change), stjórnendur og kennara,

Útdráttur

Niðurstöður rannsókna á erlendum vettvangi sýna flókið samspil ytri og innri afla sem hafa áhrif á menntabreytingar. Markmið þessarar greinar er að fjalla um kviku menntabreytinga í íslenskum framhaldsskólum og sýn skólastjórnenda og kennara í níu framhaldsskólum á breytingar í kjölfar framhaldsskólalaganna frá 2008 (lög um framhaldsskóla nr. 92/2008) og aðalnámskrár framhaldsskóla frá árinu 2011 (Menntaog menningarmálaráðuneytið, 2011).

Greinin er byggð á viðtölum við 21 stjórnanda og 22 kennara í níu framhaldsskólum víðsvegar um landið. Fyrst voru skólarnir valdir með lagskiptu tilviljunarúrtaki. Þá voru stjórnendur skólanna valdir með sömu aðferð, en kennararnir voru valdir af handahófi úr hópi kennara. Viðtölin við skólastjórnendur og kennara eru rædd í ljósi kenninga Coburn (2004) sem skiptir viðbrögðum kennara við ytri kröfum um breytingar í fimm flokka. Flokkarnir eru: Höfnun (e. rejection), aftenging (e. decoupling), samhliða virkni (e. parallel structures), aðlögun (e. assimilation), og inngreyping (e. accommodation). Viðtölin eru einnig skoðuð í ljósi hugmynda Ball, Maguire og Braun (2012) um útfærslu og framkvæmd stefnu (e. policy enactment)

. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að viðbrögð skólanna níu og ólíkra hópa og einstaklinga innan þeirra megi að mestu leyti fella undir fyrrgreinda flokkun Coburn (2004). Til að ná utan um niðurstöðurnar þurfti að bæta við sjötta flokknum sem fengið hefur heitið brautryðjendur (e. pioneers). Sýn og viðhorf stjórnenda og kennara innan sama skóla fór oft ekki saman. Meiri tregða til breytinga kom fram í viðhorfum kennara en í viðhorfum stjórnenda. Niðurstöðurnar sýna mikilvægi þess að stjórnendur, kennarar og menntayfirvöld geri sér grein fyrir fjölbreytilegum viðbrögðum við kröfum menntayfirvalda um breytingar til að skilja og meta stöðuna hverju sinni. Starfsmenning er ólík milli skóla og milli deilda eða sviða hvers skóla. Niðurstöðurnar undirstrika jafnframt mikilvægi þess að skilja þau ólíku öfl sem eru að verki, þannig að yfirstíga megi hindranir og auðvelda breytingar.

Um höfund (biography)

Guðrún Ragnarsdóttir

Guðrún Ragnarsdóttir (gudrunr@hi.is) er lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Guðrún er menntaður lífeindafræðingur (BSc) og er með kennsluréttindi á grunn- og framhaldsskólastigi. Að auki er hún með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu, meistaragráðu í lýðheilsufræðum og doktorsgráðu í menntavísindum. Guðrún hefur starfað sem framhaldsskólakennari og millistjórnandi í framhaldsskólum. Einnig hefur hún tekið að sér fjölbreytt verkefni á sviði menntunar fyrir Evrópuráðið. Sérsvið hennar er kennslufræði, skólaþróun, starfsþróun og stjórnun skóla.

Niðurhal

Útgefið

2020-02-03