Hugljómun í skapandi lausnaleit: Gerjun og afmörkun verkefna

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2021.4

Lykilorð:

sköpun, gerjun, sjálfvakin hugsun, afmörkun verkefna, val, þrautalausnir

Útdráttur

Gerjun (e. incubation) er þegar hlé á vinnu við skapandi verkefni leiðir til betri úrlausna en þegar unnið er áfram að verkefninu. Þegar hlé er gert virðist hugurinn vinna ómeðvitað áfram að því að leita lausna. Gerjun er þannig ein tegund sjálfvakinnar hugsunar (e. spontaneous thought). Hugljómun um lausn er oft afrakstur þessa ferlis, en þá birtist lausnin skyndilega fyrir hugskotssjónum að því virðist áreynslulaust. Að taka sér hlé frá verkefni tryggir þó ekki að gerjun eigi sér stað, heldur getur það að hugurinn reiki stöðugt að ókláruðum verkefnum valdið hugarangri og truflað úrlausnir annarra verkefna. Það er því mikilvægt að rannsaka undir hvaða kringumstæðum sjálfvakin úrvinnsla verður að gerjun.

Tilraunir í hugrænni sálfræði hafa ítrekað sýnt fram á að gerjun stuðli að betri úrlausnum skapandi verkefna. Í tilraunum er gerjun framkölluð með því að láta þátttakendur vinna að skapandi verkefnum, gera síðan hlé á þeirri vinnu og sinna öðrum léttum verkefnum, en snúa sér svo aftur að fyrra verkefninu. Í þessum tilraunum eru notuð afmörkuð og skýrt skilgreind verkefni til að hafa stjórn á tilraunaaðstæðum. Verkefnið „ólíkir notkunarmöguleikar“ (e. alternative uses task) er gott dæmi, en þá eru fundin ný not fyrir hversdagslega hluti eins og gaffal eða regnhlíf. Skapandi verkefni í tilraunum eru því mjög ólík skapandi verkefnum sem finnast í skólastarfi. Þegar skapandi verkefni eru lögð fyrir nemendur hafa þeir gjarnan mikið val um afmörkun verkefnis og nálgun í úrvinnslu. Að velja og afmarka viðfangsefnið krefst þó hugrænnar vinnslu sem gæti truflað þá ómeðvituðu úrvinnslu sem þarf til að gerjun eigi sér stað. Til þess að hægt sé að hagnýta gerjun til að bæta úrvinnslu skapandi verkefna í hagnýtum tilgangi, eins og skólastarfi, er mikilvægt að átta sig á hvaða hlutverki afmörkun verkefnisins gegnir í þessu samhengi. Tilgangur rannsóknarinnar var þannig að skilja hvenær hlé frá verkefnavinnu styður við gerjun og leiðir til betri lausna skapandi verkefna og hvenær ekki. Sérstaklega var athugað hvort verkefnið sem unnið er að þurfi að vera skýrt afmarkað til þess að gerjun geti átt sér stað, líkt og gerist í tilraunaaðstæðum. Sömuleiðis hvort minna afmarkað verkefni geti leitt til þess að hlé frá verkefni valdi truflun frekar en að stuðla að gerjun og betri lausnum.

Rannsóknin var tilraun með millihópasniði og tveimur frumbreytum. Fyrri frumbreytan var afmörkun verkefnis (mikil afmörkun eða miðlungs) og seinni frumbreytan var gerjunartímabil (hlé til staðar eða ekki). Alls voru því fjórir tilraunahópar. Skapandi lausnir voru metnar annars vegar með skapandi nýnæmi (e. creative originality) sem byggir á meðaleinkunn bestu þriggja lausna hvers þátttakanda og skapandi afköstum (e. creative productivity) sem byggir á því að leggja saman einkunn fyrir allar einstakar lausnir þátttakanda. Þátttakendur (N = 64) voru nemendur í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og var þeim raðað af handahófi í hópana fjóra, 15–17 í hvern hóp. Tilraunin fór öll fram í tölvu og hver þátttakandi vann út af fyrir sig án truflunar. Verkefnið „ólíkir notkunarmöguleikar“ var notað og finna þurfti upp á minnst 16 nýjum notkunarmöguleikum fyrir hversdagslegan hlut. Afmörkun verkefnis var aðgerðabundin með því að þátttakendur gátu valið hlut til að nota í verkefninu (blöðru, blómapott, handklæði eða rör). Hjá helmingi þátttakenda var valið endanlegt (mikil afmörkun), en hinn helmingurinn gat skipt um skoðun þar til þeir hófu að vinna verkefnið (miðlungs afmörkun). Þetta þýddi að af þeim sem fengu gerjunartímabil var helmingur búinn að velja hlut endanlega (mikil afmörkun og gerjunartímabil) en hinn helmingurinn gat enn skipt um skoðun (miðlungs afmörkun og gerjunartímabil). Til samanburðar voru sambærilegir hópar sem ekki fengu gerjunartímabil (mikil afmörkun og ekkert gerjunartímabil; miðlungs afmörkun og ekkert gerjunartímabil).

Niðurstöðurnar sýndu að mikið afmarkað verkefni væri nauðsynlegt til að gerjunaráhrif kæmu fram, en þó aðeins fyrir fylgibreytuna skapandi nýnæmi. Samvirkni var á milli frumbreytanna tveggja og besti árangurinn var hjá hópnum sem leysti mikið afmarkað verkefni og fékk gerjunartímabil. Gerjunartímabil hafði ekki eins jákvæð áhrif hjá þeim sem fengu miðlungs afmarkað verkefni. Skýrt skilgreind og fastsett verkefni virtust veita það samhengi sem þurfti til að gerjun ætti sér stað og leiddu til betra skapandi nýnæmis úrlausna. Þegar verkefni var minna afmarkað virtist hlé frekar valda truflun en gerjun. Athygli vakti að niðurstöður fyrir fylgibreytuna skapandi afköst voru ekki með sama hætti. Þar komu fram áhrif afmörkunar og meira afmarkað verkefni leiddi til betri skapandi afkasta en minna afmarkað verkefni.

Þessar niðurstöður hafa þýðingu þegar horft er til hagnýtingar í skólastarfi og skipulagningar skapandi verkefna. Hægt er að bjóða upp á val í skapandi verkefnum, en til að gerjunartímabil skili árangri ættu kennarar að þrengja viðfangsefnið með nemendum sínum fljótlega eftir fyrirlögn. Með því að láta nemendur skilgreina verkefnið nákvæmlega er líklegra að hlé á úrvinnslu (skipulögð eða tilfallandi) leiði til gerjunar og betri lausna.

Um höfund (biographies)

Þóra Óskarsdóttir

Þóra Óskarsdóttir (thora@flr.is) er forstöðukona Fab Lab Reykjavíkur. Hún lauk BS-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands 2013 og MS-prófi í sálfræðikennslu frá sama skóla 2021. Rannsóknaráhugi hennar snýr að hugrænum ferlum í skapandi lausnaleit. Í lokaverkefni sínu rannsakaði hún hvernig val og afmörkun verkefna hefur áhrif á gerjun skapandi lausna.

Elsa Eiríksdóttir, Háskóli Íslands

Elsa Eiríksdóttir (elsae@hi.is) er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands 1999 og meistara- og doktorsprófi í verkfræðilegri sálfræði 2007 og 2011 frá Georgia Institute of Technology. Rannsóknir hennar hafa helst snúið að hugrænum ferlum í námi, yfirfærslu þekkingar og færni, verklegu námi og starfsnámi.

Niðurhal

Útgefið

2022-02-02

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar