Starfsumhverfi framhaldsskólakennara á fyrsta ári COVID-19 heimsfaraldurs

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2022.12

Lykilorð:

starfsála, starfsaðstæður, starfsskyldur, samskipti, stuðningur, framhaldsskóli

Útdráttur

Framhaldsskólastigið fór ekki varhluta af breyttu starfsumhverfi vegna COVID-19-faraldursins. Þegar samkomubann var sett á í mars 2020 fluttist öll staðkennsla yfir í fjarkennslu og hélst það fyrirkomulag fram eftir vorönn 2020. Um haustið tók við tímabil síbreytilegra samkomutakmarkana. Kennt var ýmist á staðnum eða í eins konar blöndu af fjar- og staðnámi en í lok annar fluttist kennsla aftur alfarið yfir í fjarkennslu. Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á starfsumhverfi íslenskra framhaldsskólakennara við síbreytilegar aðstæður árið 2020. Sérstök áhersla er lögð á starfsaðstæður framhaldsskólakennara, starfsskyldur, stuðning og álag en einnig á samskipti kennara við nemendur, foreldra og samstarfsfólk. Auk þess verður kannað hvort kyn og stærð skóla hafi áhrif á fyrrgreinda þætti. Unnið er með gögn úr tveimur könnunum Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands sem lagðar voru fyrir starfsfólk framhaldsskóla. Fyrri spurningalistinn var lagður fyrir í lok vorannar 2020 og sá seinni í lok haustannar 2020. Niðurstöður sýna að kennarastarfið tók miklum breytingum á fyrsta ári heimsfaraldurs. Framhaldsskólakennarar fundu fyrir auknu álagi og þeim fannst starf sitt flóknara en áður. Streita jókst frá vormisseri til haustmisseris, þrátt fyrir þá tilfinningu kennara að þeir hefðu betri tök á starfi sínu. Konur vörðu meiri tíma í umönnun barna og þær fundu fyrir meiri streitu en karlar. Samstarf kennara var meira og fundir voru tíðari en kennurunum fannst samstarfið gagnlegt. Samskipti við nemendur og foreldra jukust í heildina, einkum að mati kvenkyns kennara. Kennarar töldu að skólarnir hefðu lagað starfshætti sína að breyttri stöðu nemenda á þessum krefjandi tímum. Niðurstöðurnar vekja áleitnar spurningar um starfsumhverfi kennara og starfsþróun þeirra á tímum heimsfaraldurs og síbreytilegra starfsaðstæðna. Þær eru jafnframt innlegg í samtal um hvernig megi bregðast við komandi kreppum og varpa ljósi á ýmsa veikleika í kerfinu.

Um höfund (biographies)

Guðrún Ragnarsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Guðrún Ragnarsdóttir (gudrunr@hi.is) er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún er lífeindafræðingur og kennari að mennt. Að auki er hún með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu, MPH-gráðu í lýðheilsufræðum og doktorsgráðu í menntavísindum frá Háskóla Íslands. Guðrún hefur starfað sem millistjórnandi og grunn- og framhaldsskólakennari. Einnig hefur hún tekið að sér fjölbreytt verkefni á sviði menntunar fyrir Evrópuráðið. Rannsóknasvið hennar er kennslufræði, skólaþróun, starfsþróun og stjórnun skóla.

Súsanna Margrét Gestsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Súsanna Margrét Gestsdóttir (susmar@hi.is) er lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún er sagnfræðingur og kennari að mennt og hefur starfað við sögukennslu, kennaramenntun og sem stjórnandi í framhaldsskóla. Súsanna Margrét hefur verið virkur þátttakandi í alþjóðlegu starfi þeirra sem standa að sögukennslu og menntun sögukennara og hún lauk doktorsnámi á því sviði við Háskólann í Amsterdam. Í starfi sínu leggur hún áherslu á tengsl háskólans við starfsvettvang kennara.

Amalía Björnsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Amalía Björnsdóttir (amaliabj@hi.is) er prófessor við deild heilsueflingar, íþrótta- og tómstunda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1991, M.Sc.-prófi frá University of Oklahoma 1994 og doktorsprófi frá sama skóla 1996. Hún hefur lagt stund á rannsóknir á sviði mælinga og prófagerðar, lestrar- og málþroskamælinga, skólastjórnunar og áhrifa félagslegra þátta á skólastarf.

Elsa Eiríksdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Elsa Eiríksdóttir (elsae@hi.is) er dósent í kennslufræði verk- og starfsmenntunar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1999 og meistara- og doktorsprófi í verkfræðilegri sálfræði frá Georgia Institute of Technology í Atlanta í Bandaríkjunum 2007 og 2011. Rannsóknaráhugi hennar beinist að námi og yfirfærslu, þróun kunnáttu, framhaldsskólastiginu og verk- og starfsmenntun.

Niðurhal

Útgefið

2022-10-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar