Sveinspróf í iðnmenntakerfinu: Tímaskekkja eða réttmætt mat á hæfni?
##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.13Lykilorð:
iðnmenntun, iðnnám, sveinspróf, starfsmenntun, framhaldsskóliÚtdráttur
Í þeirri rannsókn sem hér er fjallað um eru sveinspróf skoðuð, bæði út frá stöðu þeirra sem samfélagsleg viðurkenning á hæfni fagmanns og sem lokamat á námi í iðngrein. Nám til iðnsveins fer fram í tvískiptu kerfi löggiltra iðngreina, annars vegar í skóla og hins vegar á vinnustað. Sveinspróf eru próf atvinnulífsins og tekin eftir að námi í skóla lýkur með burtfararprófi og vinnustaðahluta námsins er lokið. Sveinspróf í iðngrein veita lögvernduð réttindi til að starfa sjálfstætt við greinina og er talið mælikvarði á kunnáttu fagmanns í viðkomandi iðngrein. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á viðhorf þeirra sem starfa innan starfsmenntakerfisins, sveina, iðngreinakennara og iðnmeistara til sveinsprófa. Spurt er hvernig sveinspróf tengjast iðnnámi í heild, hvernig innihaldsréttmæti sveinsprófa birtist þeim sem nema og kenna iðngreinar og skoðuð er upplifun þeirra af próftökuferlinu, með tilliti til undirbúnings, einkunnagjafar og tengsla við burtfararpróf frá skóla. Unnið var úr viðtalsgögnum við 24 kennara, meistara og sveina í fjórum ólíkum iðngreinum. Niðurstöður benda til þess að viðmælendur telji innihaldsréttmæti sveinsprófa ábótavant og oft meti þau ekki það sem kennt er í náminu í heild, í skóla og á vinnustað. Viðmælendur höfðu ekki allir sömu sýn á til hvaða þátta námsins sveinspróf ætti að ná, en þó voru flestir sammála um að það væri ekki í takt við kröfur fagsins. Niðurstöður sýna að stjórnsýsla sveinsprófa er flókin og mikilvægt sé að þeir sem hagsmuna eiga að gæta vinni og ræði saman til að tryggja réttmæti prófanna. Sveinspróf eiga að tryggja að fullnuma iðnaðarmaður hafi öðlast þá þekkingu, leikni og hæfni sem til er ætlast til að geta starfað sjálfstætt. Skorti þau hins vegar réttmæti gera þau það ekki.Niðurhal
Útgefið
2021-02-05
Tölublað
Kafli
Ritrýndar greinar