Kulnun kennara og starfsaðstæður: Þróun og samanburður við aðra opinbera sérfræðinga

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2019.12

Lykilorð:

kulnun, grunnskólakennarar, starfsaðstæður, heilsa og vellíðan, örmögnunarröskun, opinberir sérfræðingar

Útdráttur

Frá efnahagshruninu 2008 hefur niðurskurður fjármagns leitt til þess meðal annars að minna svigrúm hefur gefist til að takast á við brýn úrlausnarefni í skólastarfi. Vísbendingar eru um að líðan kennara hafi versnað frá árinu 2008 og því er mikilvægt að kanna hvort breytingar hafi orðið á einkennum kulnunar frá fyrri rannsóknum meðal grunnskólakennara á árunum 1999 og 2005. Sami spurningalisti og notaður var í fyrri rannsóknum, Maslach Burnout Inventory (MBI-ES) var lagður fyrir 515 grunnskólakennara í Reykjavík. Konur voru 85%, karlar 15% og svarhlutfallið var 38%. Einnig voru lagðir fyrir listar sem meta annars vegar örmögnunarröskun (The Karolinska Emotional Exhaustion Scale – KEDS) og hins vegar starfsaðstæður (Job Demands-Resource Scale – JDRS). Í ljós kom að einkenni kulnunar meðal grunnskólakennara hafa aukist frá því fyrir hrun, einkum tilfinningaþrot, en grunnskólakennarar meta starfsárangur enn nokkuð mikinn og finna varla til hlutgervingar gagnvart nemendum. Um 42% grunnskólakennara mæta greiningarviðmiðum fyrir örmögnunarröskun samanborið við 31–38% félagsmanna BHM. Hvað starfsaðstæður varðar meta grunnskólakennarar álag mikið en telja sig hafa tækifæri til að vaxa í starfi og fá stuðning frá stofnun, t.d. stjórnendum. Grunnskólakennarar finna til starfsöryggis en þeir hafa ekki mikla möguleika á framgangi í starfi. Álag reyndist hafa sterkust tengsl við kjarnaeinkenni kulnunar, tilfinningaþrot, í líkani Maslach og einnig örmögnunarröskun. Möguleikar til vaxtar í starfi og stuðningur stofnunar virðast hafa verndandi áhrif. Niðurstöður sýna að kulnun hefur aukist og mikilvægt er að huga að starfsaðstæðum grunnskólakennara, sérstaklega of miklu álagi. Ástæður þessa mikla álags geta verið margvíslegar en hugsanlega má rekja þær til hegðunarvanda í nemendahópi, skorts á viðeigandi úrræðum í málefnum nemenda sem veita þarf sérstakan stuðning, aukins foreldrasamstarfs og almenns virðingarleysis gagnvart kennarastarfinu í samfélaginu.

Um höfund (biographies)

Sif Einarsdóttir

Sif Einarsdóttir (sif@hi.is) er prófessor við námsbraut í náms- og starfsráðgjöf á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Hún er með doktorsgráðu í ráðgefandi sálfræði frá University of Illinois, Champaign – Urbana. Hún hefur stundað rannsóknir á starfsáhuga fyrst og fremst en einnig á náms- og starfsferli ólíkra samfélagshópa.

Regína Bergdís Erlingsdóttir

Regína Bergdís Erlingsdóttir (rbe2@hi.is) lauk B.S.-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands og er með meistaragráðu í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Meistararitgerð hennar fjallaði um kulnun á meðal grunnskólakennara.

Amalía Björnsdóttir

Amalía Björnsdóttir (amaliabj@hi.is) er prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk B.A.-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands, M.Sc.-prófi frá háskólanum í Oklahoma og doktorsprófi frá sama skóla. Hún hefur lagt stund á rannsóknir á sviði mælinga og prófagerðar, lestrar- og málþroskamælinga, skólastjórnunar og áhrifa félagslegra þátta á skólastarf.

Ásta Snorradóttir

Ásta Snorradóttir (astasnorra@hi.is) er lektor við Félagsráðgjafardeild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Hún er með doktorsgráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur lagt stund á rannsóknir á líðan og heilsu starfsfólks með sérstaka áherslu á áhrifaþætti heilsu og líðanar í félagslegu vinnuumhverfi.

Niðurhal

Útgefið

2020-01-30

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)

1 2 > >>