„Voruð þið að tala um mig?“ Um nemendavernd í grunnskólum
Lykilorð:
ávörðunartaka, hlutdeild, nemendavernd, nemendaverndarráð, réttindi barna, skólastarf, grunnskóliÚtdráttur
Markmiðið með rannsókninni sem hér er greint frá er að kanna starfsemi nemendaverndarráða í grunnskólum og hlutdeild nemenda í ákvörðunartöku í eigin málum í ráðunum. Tilgangurinn er að veita innsýn í störf ráðanna og draga lærdóm af niðurstöðum en einnig að vekja lesendur til umhugsunar um réttindastöðu grunnskólanemenda. Vaxandi skilningur er á mikilvægi þess að rödd barna fái hljómgrunn, að á þau sé hlustað og að þess sjáist merki við ákvörðunartöku í málum þar sem aðstæður þeirra og vandi eru til meðferðar. Nemendaverndarráð eru þverfagleg teymi sem eiga að starfa í grunnskólum landsins og þeim er ætlað að stuðla að velferð nemenda. Starfsemi þeirra hefur lítt verið rannsökuð og ekki hafa legið fyrir upplýsingar um þátttöku barna í meðferð mála sem tekin eru fyrir þar. Rafrænn spurningalisti var sendur til skólastjóra allra grunnskóla á Íslandi skólaárið 2013–2014. Alls bárust svör frá 84 skólum og var svarhlutfall 50% á landsvísu. Niðurstöður benda til þess að nemendaverndarráð starfi í flestum grunnskólum og töldu þátttakendur þau almennt starfa með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Mál sem rata inn á borð nemendaverndarráða eiga það flest sameiginlegt að fjalla um málefni einstakra nemenda en hlutdeild nemenda í afgreiðslu mála sem þá snerta er takmörkuð. Þátttakendur töldu aldur og þroska nemenda og eðli mála helstu ástæður lítillar aðkomu nemendanna sjálfra. Meirihluta foreldra (86%) er tilkynnt að um mál barns þeirra sé fjallað í ráðunum en hlutfallslega fáum börnum er gert viðvart um það (17%). Niðurstöður benda til að tryggja þurfi betur hlutdeild nemenda í ákvörðunum um eigin málefni í nemendaverndarráðunum.