Nýliðun leikskólakennara, fjöldi brautskráðra og bakgrunnur leikskólakennaranema

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2020.12

Lykilorð:

leikskólakennaranemar, leikskólakennaranám, óhefðbundnir háskólanemar, fjarnám, leikskólakennarar

Útdráttur

Skortur á leikskólakennurum hefur verið viðvarandi á Íslandi en samkvæmt lögum eiga tveir þriðju hlutar starfsmanna leikskóla að vera leikskólakennarar. Tilgangur þessarar rannsóknar er í fyrsta lagi að meta þörf fyrir nýliðun í stétt leikskólakennara miðað við stöðu og þróun undanfarna áratugi. Í öðru lagi að skoða framvindu stúdenta í leikskólakennaranámi við Háskóla Íslands og draga upp mynd af bakgrunni þeirra og aðstæðum. Frá 1998 til 2013 fjölgaði leikskólakennurum en eftir það hefur þeim fækkað og hlutfall eldri leikskólakennara í stéttinni er að aukast. Nýliðun hefur verið lítil þar sem brautskráningum úr leikskólakennaranámi fækkaði eftir að krafist var fimm ára meistaranáms til starfsréttinda. Á sama tíma hefur leikskólabörnum fjölgað og viðverutími lengst. Af tölum um fjölda innritaðra og brautskráðra í leikskólakennaranámi við Háskóla Íslands á árunum 2015–2019 sést að innan við helmingur lýkur námi innan hefðbundinna tímamarka. Þetta bendir til þess að um mikið brottfall geti verið að ræða og/eða að framvinda stúdenta í náminu sé hæg. Í niðurstöðum spurningakönnunar, sem lögð var fyrir leikskólakennaranema á fyrsta og öðru námsári, kemur fram að óhefðbundnir stúdentar eru í meirihluta, þ.e. þeir eru yfir 25 ára aldri þegar þeir hefja nám, eru í sambúð og með börn á framfæri. Langflestir stunduðu námið í fjarnámi og unnu í leikskóla með námi og um helmingur í fullu starfi eða því sem næst. Um tveir þriðju hlutar leikskólakennaranemanna notuðu 20 klst. eða minna á viku í námið og þegar komið var á annað námsár höfðu 40% þátttakenda lokið sem samsvarar fullu námi á fyrsta námsári, sem bendir til að námstími til að ljúka fimm ára háskólanámi verði langur. Niðurstöðurnar benda til að vandinn skýrist af aðstæðum stúdenta sem gera það að verkum að þeir hafa ekki nægan tíma til að sinna náminu. Knýjandi er að finna leiðir til gera fleirum kleift að ljúka leikskólakennaranámi.

Um höfund (biographies)

Amalía Björnsdóttir

Amalía Björnsdóttir (amaliabj@hi.is) er prófessor við deild heilsueflingar, íþrótta- og tómstunda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk B.A.-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1991, M.Sc.-prófi frá University of Oklahoma 1994 og doktorsprófi frá sama skóla 1996. Hún hefur lagt stund á rannsóknir á sviði mælinga og prófagerðar, lestrar- og málþroskamælinga, skólastjórnunar og áhrifa félagslegra þátta á skólastarf.

Þuríður Jóna Jóhannsdóttir

Þuríður Jóna Jóhannsdóttir (thuridur@hi.is) er prófessor í menntunarfræðum við deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og námsbrautarformaður í menntun framhaldsskólakennara. Hún lauk B.A.-prófi í íslensku og þjóðfélagsfræði frá HÍ árið 1978, M.Ed.-prófi í menntunarfræði frá Kennaraháskóla Íslands 2001 og doktorsprófi í uppeldis- og menntunarfræði frá HÍ 2010. Rannsóknir hennar hafa snúist um fjarnám í kennaranámi og á framhaldsskólastigi, notkun upplýsingatækni í námi og kennslu á öllum skólastigum, þróun kennsluhátta í háskóla og framhaldsskóla og námskrárþróun.

Niðurhal

Útgefið

2020-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)

1 2 > >>