Tengsl fræða og starfs í kennaramenntun: Sjónarhorn nema

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2023.5

Lykilorð:

kennaramenntun, grunnskólakennaranemar, tengsl fræða og starfa, samhengi í námi

Útdráttur

Kennaramenntun hefur víða verið gagnrýnd fyrir skort á samhengi innan námsins og einnig skort á tengslum milli námskeiða í kennaranámi og starfa kennara á vettvangi. Alþjóðlegar rannsóknir á kennaramenntun benda til þess að lykilatriði í árangursríkum undirbúningi fyrir kennarastarfið séu tækifæri til að læra og æfa aðferðir sem byggja á og tengjast raunverulegu starfi kennara í kennslustofu. Því leggja rannsakendur og stefnumótendur um allan heim í síauknum mæli áherslu á að móta aðferðir í kennaramenntun sem brúa bilið milli fræða og starfs. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða sýn nema á samhengi í grunnskólakennaranámi og tækifæri sem þeir fá til að tengja saman fræði og starf með árangursríkum hætti. Gögnum var safnað með spurningakönnun þar sem upplifun nema af ýmsum þáttum kennaranámsins var skoðuð og svöruðu 178 nemar á lokaári í grunnskólakennaranámi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Skoðað var hvort munur væri á sýn nema eftir háskólum, hvort þeir væru í launuðu starfsnámi eða hefðbundnu vettvangsnámi og hvort þeir væru í fimm ára samfelldu kennaranámi eða meistaranámi að lokinni bakkalárgráðu af öðru sviði. Niðurstöður gefa vísbendingar um að námið undirbúi kennaranema nokkuð heildstætt undir kennslu að námi loknu en gefa einnig til kynna að rými sé til úrbóta þegar kemur að tengslum fræða og starfs.

Um höfund (biographies)

Berglind Gísladóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Berglind Gísladóttir (berglindg@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 2002, M.Ed-prófi í stærðfræðimenntun frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007 og doktorsprófi í stærðfræðimenntun frá Columbiaháskóla í New York árið 2013. Rannsóknaráhugi Berglindar beinist að gæðum kennslu, fagþekkingu kennara og kennaramenntun. Einnig beinist áhuginn að námslegum og félagslegum þáttum sem hafa áhrif á námsárangur nemenda.

Amalía Björnsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Amalía Björnsdóttir (amaliabj@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1991, M.Sc.-prófi frá University of Oklahoma 1994 og doktorsprófi frá sama skóla 1996. Hún hefur lagt stund á rannsóknir á sviði lestrar- og málþroskamælinga, skólastjórnunar og áhrifa félagslegra þátta á skólastarf. Á síðustu misserum hefur hún rannsakað áhrif COVID-19-faraldursins í framhalds- og háskólum.

Birna María B. Svanbjörnsdóttir, Háskólinn á Akureyri - Kennaradeild

Birna María B. Svanbjörnsdóttir (birnas@unak.is) er dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún lauk B.Ed-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1988, M.Ed-prófi frá Háskólanum á Akureyri 2005 og doktorsprófi í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands 2015. Helstu áherslur í rannsóknum hennar lúta að starfsþróun kennara, starfstengdri leiðsögn, kennaramenntun og gæðum kennslu.

Guðmundur Engilbertsson, Háskólinn á Akureyri - Kennaradeild

Guðmundur Engilbertsson (ge@unak.is) er lektor við kennaradeild Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Hann hefur lokið B.Ed.-prófi í kennarafræði og M.Ed.-prófi í menntunarfræði við Háskólann á Akureyri og er doktorsnemi í menntavísindum við Háskóla Íslands. Helstu viðfangsefni hans í kennslu og rannsóknum lúta að gæðum kennslu, orðaforða, læsi til náms og náms- og kennslufræði.

Niðurhal

Útgefið

2023-04-20

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar