Samband menntunar foreldra við frammistöðu þátttakenda í PISA-könnuninni á Norðurlöndum

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.32

Lykilorð:

PISA, menntun foreldra, námsárangur, félagsleg staða, alþjóðlegur samanburður

Útdráttur

Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða tengsl milli menntunar foreldra og árangurs barna þeirra í PISA (e. Programme for International Student Assessment). Alveg frá því að PISA var lagt fyrir í fyrsta sinn hefur því verið haldið fram að Ísland hafi þá sérstöðu að hverfandi tengsl séu milli menntunar foreldra og árangurs barna þeirra í PISA, ólíkt því sem gerist í öðrum löndum. Í þessari rannsókn voru notuð gögn úr PISA frá fyrirlögn árið 2015 og einskorðaðist greiningin við Norðurlöndin fimm. Markmiðið var að svara spurningunni hvort Ísland hefði raunverulega sérstöðu í þessum efnum eða hvort lítil tengsl sem hefðu komið fram til þessa mætti rekja til þeirra aðferða sem notaðar voru til að meta tengsl menntunar foreldra og árangurs barna þeirra. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að á öllum Norðurlöndum sé umtalsverður munur á meðalárangri þátttakenda sem eiga foreldra með grunnskólamenntun og þeirra þátttakenda sem eiga foreldra með háskólamenntun. Þá sýna niðurstöður skýrt að Ísland er ekki verulega frábrugðið hinum Norðurlöndunum að þessu leyti. Ef viðmið OECD um meðalframfarir nemenda á einu skólaári eru notuð til túlkunar er ekki hægt að álykta annað en að munur á meðalárangri barna grunn- og háskólamenntaðra foreldra sé mjög verulegur. Niðurstöður sýndu að þessi munur samsvarar meðalframförum á tveimur skólaárum í stærðfræðilæsi, meðalframförum á rúmum tveimur skólaárum í lesskilningi og tæpum tveimur árum í náttúrufræðilæsi.

Um höfund (biographies)

Berglind Gísladóttir

Berglind Gísladóttir (berglindg@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-gráðu frá Kennaraháskóla Íslands 2002, M.Ed.-gráðu í stærðfræðimenntun frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007 og doktorsprófi í stærðfræðimenntun frá Columbia-háskóla í New York árið 2013. Rannsóknaráhugi Berglindar beinist að námslegum og félagslegum þáttum sem hafa áhrif á námsárangur nemenda. Einnig beinist áhuginn að fagþekkingu kennara og þróun skólastarfs.

Hans Haraldsson

Hans Haraldsson (haha@hi.is) er verkefnisstjóri hjá Menntavísindastofnun Háskóla Íslands. Hann lauk B.S.-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 2015 og stundar meistaranám í sálfræði og hagnýtri tölfræði, einnig við Háskóla Íslands.

Amalía Björnsdóttir

Amalía Björnsdóttir (amaliabj@hi.is) er prófessor við Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk B.A.-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1991, M.Sc.-prófi frá háskólanum í Oklahoma 1994 og doktorsprófi frá sama skóla 1996. Hún hefur lagt stund á rannsóknir á sviði mælinga og prófagerðar, lestrar- og málþroskamælinga, skólastjórnunar og áhrifa félagslegra þátta á skólastarf.

Niðurhal

Útgefið

2020-02-10

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)

1 2 > >>