Tengsl niðurstaðna á HLJÓM-2 við gengi á samræmdum prófum - Hverjir bæta stöðu sína og hverjir dragast aftur úr?

Höfundar

  • Amalía Björnsdóttir
  • Jóhanna Thelma Einarsdóttir
  • Ingibjörg Símonardóttir

Lykilorð:

Hljóðkerfisvitund, samræmd próf, námsárangur

Útdráttur

Í þessari grein eru kynntar niðurstöður úr langtímarannsókn þar sem mælingar á málþroska 5 ára barna í leikskóla með HLJÓM-2 eru tengdar við árangur á samræmdum prófum í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla. Einnig eru niðurstöður bornar saman við svör sömu þátttakenda við spurningalista um gengi í grunnskóla sem lagður var fyrir þá þegar þeir voru 18–19 ára. Í rannsókninni var þátttakendum skipt í þrjá færnihópa eftir niðurstöðum á HLJÓM-2 og í sambærilega hópa eftir niðurstöðum á samræmdum prófum í grunnskóla. Í hópi 1 eru þau 25% sem fengu lægstu stigatöluna, í hópi 2 næstu 25% og í hópi 3 þau 50% sem voru með stigatölu í meðallagi eða þar yfir. Kannað var hversu hátt hlutfall nemenda hafði bætt stöðu sína, það er færst á milli hópa, í samanburði við jafnaldra frá því að þeir tóku HLJÓM-2 og þar til þeir tóku samræmd próf. Einnig voru könnuð áhrif þess á námsárangur að nemendur hafi fengið sérkennslu eða talið sig hafa þurft á sérkennslu að halda en ekki fengið slíka kennslu. Loks var kannað hvaða áhrif greiningar á mismunandi þroskasviðum hefðu á framfarir nemenda. Niðurstöður benda til þess að sérkennsla skili sér ekki endilega í bættum árangri á samræmdum prófum. Þetta þarf ekki að þýða að sérkennsla sé gagnslítil því hugsanlega kemur hún í veg fyrir að nemendur dragist enn frekar aftur úr jafnöldrum í námi. Þeir þátttakendur sem töldu sig hafa þurft að fá sérkennslu en fengu ekki voru líklegri en aðrir nemendur til að hafa dregist frekar aftur úr jafnöldrum sínum. Greiningar á námsörðugleikum og/eða athyglisbresti tengjast bæði slökum árangri á HLJÓM-2 og samræmdum prófum en HLJÓM-2 bætir verulega við forspá um árangur á samræmdum prófum í íslensku þegar búið er að taka tillit til slíkra greininga. 

Um höfund (biographies)

Amalía Björnsdóttir

Amalía Björnsdóttir (amaliabj@hi.is) er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.A.-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1990, M.Sc.-prófi frá University of Oklahoma 1994 og doktorsprófi frá sama skóla 1996. Hún hefur lagt stund á rannsóknir á sviði mælinga og prófagerðar, lestrar- og málþroskamælinga og áhrifa félagslegra þátta á skólastarf.

Jóhanna Thelma Einarsdóttir

Jóhanna T. Einarsdóttir (jeinars@hi.is) er dósent við Mennta- og Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk mastersprófi í talmeinafræði í Þýskalandi 1986 og doktorsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands 2009. Hún hefur verið að rannsaka máltöku barna, hljóðkerfisvitund og sjálfsprottið tal auk rannsókna á greiningu og meðferð stams hjá börnum og fullorðnum. 

Ingibjörg Símonardóttir

Ingibjörg Símonardóttir (ingibjorgsim@internet.is) er sjálfstætt starfandi talmeinafræðingur. Hún lauk kennaraprófi 1964. Nam talmeinafræði í Bandaríkjunum og Svíþjóð og lauk diplomaprófi frá Gautaborgarháskóla1979, B.S prófi í Almennum málvísindum frá Háskóla Íslands 1986 og M.Ed. frá Kennaraháskóla Íslands með áherslu á sérkennslu 1996. Rannsóknir Ingibjargar hafa einkum beinst að tengslum máltöku barna og hljóðkerfisvitundar við síðari lestrarfærni. 

Niðurhal

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar