Hliðvörður hvert er hlutverk þitt? Þátttaka barna í rannsóknum

Höfundar

  • Guðrún Kristinsdóttir
  • Hervör Alma Árnadóttir

Lykilorð:

börn, aðgengi, hliðverðir, rannsóknir, þátttaka, vald

Útdráttur

Markmiðið með greininni er að varpa ljósi á reynslu rannsakenda af því að fá formleg leyfi og aðgengi að börnum til að rannsaka hagi þeirra og ræða við þau um málefni sem þau varða. Tilgangurinn er að efla umræðu um málið og vekja athygli á því hver réttur barnanna er í því sambandi. Rannsakendum ber að afla formlegra leyfa stofnana, forsjáraðila og barna við undirbúning rannsókna þar sem börn eru þátttakendur. Í slíkum rannsóknum þurfa rannsakendur oftar en ekki aðstoð við aðgengi að börnum frá stofnunum, fagfólki og forsjáraðilum, svokölluðum hliðvörðum (e. gatekeepers). Greinin er byggð á rýnihópaviðtölum og var rætt við starfandi fræðimenn við Háskóla Íslands. Allir höfðu þeir lagt stund á rannsóknir með börnum þar sem þau voru beinir þátttakendur og höfðu talsverða reynslu af samskiptum við hliðverði. Niðurstöður benda til þess að einfalda þurfi og skýra ferli formlegra leyfa slíkra umsókna hjá nefndum og yfirmönnum stofnana og að ferlið sé flókið, dýrt og tímafrekt. Það sé of persónubundið hvaða upplýsinga sé þörf, það geti verið bundið fræðigrein rannsakanda, og einnig njóti ákveðin svið meira trausts en önnur. Fram kom að stofnanir og fagmenn væru oft treg til þess að opna hlið fyrir rannsakendur þó svo að formleg leyfi lægju fyrir. Margt getur leitt til slíkrar tregðu og nefndar voru ástæður eins og efasemdir um hæfni rannsakenda til þess að ræða við börn og að hlífa eigi þeim við viðkvæmum spurningum. Rannsakendur höfðu á hinn bóginn ekki fundið teljandi fyrirstöðu hjá forsjáraðilum og börnum. Fræðimenn á sviði menntarannsókna höfðu ekki mætt sömu hindrunum hliðvarða og rannsakendur í heilbrigðisog félagsvísindum. Nýlegar niðurstöður ýmissa athugana sýna óyggjandi hæfni barna til þátttöku í rannsóknum og kallar það á aukna meðvitund um áhrif og hlutverk hliðvarða. Það gæti leitt til fleiri rannsókna um líf og aðstæður barna frá þeirra sjónarhorni. 

Um höfund (biographies)

Guðrún Kristinsdóttir

Guðrún Kristinsdóttir (gkristd@hi.is) er prófessor í menntunarfræðum við Háskóla Íslands og Associate Fellow við University of Warwick í Englandi. Rannsóknir beinast einkum að hag og aðstæðum barna. Bókin Ofbeldi á heimili: Með augum barna, sem Guðrún ritstýrði, hlaut Fjöruverðlaunin 2015 og verðlaun Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna 2015. Guðrún átti frumkvæði að stofnun Samtaka um rannsóknir í félagsráðgjöf, Ís-Forsa, og einnig að stofnun Rannsóknarstofu í bernskuog æskulýðsfræðum;BÆR og er þar í stjórn. Guðrún hefur lengi tekið þátt í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi. Hún situr í ritstjórn tímaritsins Nordic Social Work Research. 

Hervör Alma Árnadóttir

Hervör Alma Árnadóttir (hervora@hi.is) er félagsráðgjafi, stundar doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og er lektor við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. Doktorsverkefni hennar ber vinnuheitið Stuðningur talsmanna við börn hjá barnavernd á Íslandi. Kennsla Hervarar Ölmu snýr að þátttöku, samfélagsvinnu og hópastarfi. Áherslur hennar í rannsóknum eru börn og ungmenni, þátttaka og hópavinna

Niðurhal

Útgefið

2016-12-04

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar