Áhrif undirbúningstíma á fagmennsku leikskólakennara og gæði leikskólastarfs

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2022.10

Lykilorð:

leikskóli, undirbúningstími, gæði, leikskólakennarar, fagmennska

Útdráttur

Tími sem ætlaður er leikskólakennurum til undirbúnings starfsins var lengdur töluvert frá því sem áður var í kjarasamningum árið 2020. Í þessari grein er sagt frá rannsókn sem gerð var í átta leikskólum á Íslandi með það að markmiði að varpa ljósi á skipulag og framkvæmd undirbúningstíma leikskólakennara. Tilgangurinn var að skoða áhrif aukins undirbúningstíma á fagmennsku leikskólakennara og gæði leikskólastarfs. Leitað var svara við hvernig fyrirkomulagi undirbúningstíma er háttað og hver er forgangsröðun þeirra verkefna sem unnin eru. Er greinin hluti af stærra rannsóknarverkefni sem unnið er innan Rannsóknarstofu um menntunarfræði ungra barna. Tekin voru viðtöl víðs vegar um landið við leikskólastjóra, deildarstjóra og leikskólakennara, samtals 24 viðmælendur. Voru þeir beðnir um að lýsa þeim aðstæðum sem undirbúningstíminn fer fram í, á hvaða tíma dagsins og hvernig verkefnum er forgangsraðað. Niðurstöður sýndu að almenn ánægja var með aukningu á tíma til að undirbúa starfið. Undirbúningstími var yfirleitt nýttur utan deildar og voru verkefnin oftast unnin í tölvu. Forgangsröðun verkefna tók mið af áætlanagerð og árstíðabundnum verkefnum. Allur gangur var á því hvenær dags undirbúningsvinna fór fram. Lýstu margir viðmælenda áhyggjum yfir mikilli fjarveru kennara af deildum. Mikill munur reyndist vera á þeim heildartíma sem leikskólar hafa til undirbúnings starfsins eftir því hve margir leikskólakennarar voru starfandi í leikskólanum. Skiptar skoðanir voru meðal viðmælenda um á hvaða forsendum úthluta ætti undirbúningstíma til leikskóla. Sú aðferð sem notuð er til úthlutunar undirbúningstíma hefur falið í sér ójöfnuð, sem með fleiri tímum hefur aukist enn frekar. Sá ójöfnuður hlýtur óhjákvæmilega að koma niður á gæðum starfs í leikskólunum, þar með leik, umönnun og námi barna.

Um höfund (biographies)

Anna Magnea Hreinsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Anna Magnea Hreinsdóttir (amh@hi.is) lauk námi í tómstundafræðum frá Göteborgs folkhögskola í Svíþjóð árið 1980, B.Ed.-gráðu í leikskólafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999 og meistaraprófi frá sama skóla árið 2003. Árið 2009 lauk hún doktorsprófi í menntunarfræðum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands með áherslu á lýðræðislegt umræðumat á skólastarfi. Hún vann sem leikskólastjóri og leikskólafulltrúi á árunum 1991–2015 og var sviðsstjóri fjölskyldusviðs Borgarbyggðar á árunum 2015–2020. Nú starfar hún sem aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Kristín Karlsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Kristín Karlsdóttir (krika@hi.is) er dósent í menntunarfræði ungra barna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Kennsla hennar og rannsóknir snúa að ígrundun og fagþróun leikskólakennara, þátttöku barna í leik og námi, börnum sem áhrifavöldum í eigin lífi og lýðræðislegu leikskólastarfi. Auk þess hefur hún fjallað um og rannsakað námssöguskráningar og mat í leikskólastarfi.

Margrét Sigríður Björnsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Margrét Sigríður Björnsdóttir (margreb@hi.is) er aðjúnkt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og verkefnisstjóri hjá RannUng. Hún lauk grunnskólakennaraprófi frá KHÍ 1989 og M.Ed.-prófi frá Háskólanum í Reykjavík 2009 í stærðfræði og kennslufræði stærðfræðinnar. Margrét hefur starfað bæði í leik- og grunnskóla.

Sara M. Ólafsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Sara M. Ólafsdóttir (saraola@hi.is) er dósent í leikskólafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Sara lauk doktorsprófi í menntunarfræði við Háskóla Íslands árið 2019. Megináherslur í rannsóknum hennar hafa verið sjónarmið barna gagnvart hinum ýmsu viðfangsefnum, m.a. leik, þáttaskilum milli leik- og grunnskóla, vellíðan barna og fullgildi. Sara er auk þess í forstöðu fyrir RannUng, Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna.

Niðurhal

Útgefið

2022-08-24

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)

1 2 > >>