Upplifun barna af leikskóladvöl „Stundum er maður lengi í leikskólanum, en ekki alltaf“

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2021.12

Lykilorð:

leikskóli, dvalartími barna, starfshættir leikskóla, sjónarmið barna, merkingarbær reynsla

Útdráttur

Klukkan mótar starfshætti í leikskólum og stýrir tíma barna í daglegu starfi. Áhrif tímans á leikskólastarf og skipulag þess eru töluverð og er upplifun barna á tíma ekki sú sama og fullorðinna. Klukkan hefur áhrif á barnahópinn og tengist fagmennsku kennara sem felst í skýru dagskipulagi og vel skipulögðu starfi. Á sama tíma getur skipulag tímans komið í veg fyrir flæði í leik barna og dýpt. Markmið þessarar rannsóknar er að leita eftir upplifun barna á dvalartíma sínum í leikskóla og varpa ljósi á hvaða þættir hafa áhrif þar á í þeim tilgangi að koma betur til móts við sjónarmið þeirra. Rannsakendur byggðu á aðferðum sniðnum að ungum börnum í anda þátttökurannsókna og vörðu tíma með 160 til 180 börnum á aldrinum 4 til 5 ára á níu deildum í sex leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður sýna að leikskólarnir sem tóku þátt í rannsókninni störfuðu eftir hefðbundnu dagskipulagi eða sveigjanlegu, sem þó var í eðli sínu ekki ósvipað hefðbundnu skipulagi, þar sem fastir liðir eru matartímar, samverustundir, leikur og útivera. Fram kom að börnin sem rætt var við þekkja ekki annað en að dvelja í leikskóla megnið af vökutíma sínum. Mörg barnanna töldu sig vera lengi í leikskólanum, sumum börnum fannst misjafnt hvort þau eru lengi eða stutt og einhverjum barnanna fannst þau vera stutt í leikskólanum. Fram kom að vinátta barna er þeim mikilvæg og að þau fái tækifæri til að fást við fjölbreytt, menntandi og merkingarbær viðfangsefni í leikskólanum sem þau fá að stýra sjálf. Gefa þarf tímaskyni barna gaum og ætti skipulag leikskólastarfs að taka mið af upplifun og skynjun barna á tíma.

Um höfund (biographies)

Anna Magnea Hreinsdóttir

Anna Magnea Hreinsdóttir (amh@hi.is) lauk námi í tómstundafræðum frá Göteborgs folkhögskola í Svíþjóð árið 1980, B.Ed.-gráðu í leikskólafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999 og meistaraprófi frá sama skóla árið 2003. Árið 2009 lauk hún doktorsprófi í menntunarfræðum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands með áherslu á lýðræðislegt umræðumat á skólastarfi. Hún vann sem leikskólastjóri og leikskólafulltrúi á árunum 1991–2015 og var sviðsstjóri fjölskyldusviðs Borgarbyggðar á árunum 2015–2020. Nú starfar hún sem aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Kristín Dýrfjörð

Kristín Dýrfjörð (dyr@unak.is) er dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Kristín starfaði sem leikskólastjóri í um áratug og var virk í félagsstörfum fyrir Félag leikskólakennara. Hún tók þátt í að rita síðustu tvær aðalnámskrár leikskóla. Rannsóknir hennar snúa að lýðræði í starfi leikskóla, skapandi starfi í leikskólum og áhrifum stefnumótunar og hugmyndafræði á leikskólastarf.

Niðurhal

Útgefið

2021-12-09

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar