Námssögur - Tæki til að meta áhuga, virkni og líðan barna í leikskóla

Höfundar

  • Kristín Karlsdóttir
  • Anna Magnea Hreinsdóttir

Lykilorð:

leikskóli, námsmat, námssögur– starfendarannsókn

Útdráttur

Greinin fjallar um starfendarannsókn sem fór fram samhliða þróunarverkefni í átta leikskólum í sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Deildarstjórar leikskólanna, 23 talsins, tóku þátt í rannsókninni ásamt höfundum þessarar greinar; lektor við Háskóla Íslands og leikskólafulltrúa Garðabæjar. Markmiðið var að þróa skráningu á námssögum og fylgjast með því hvernig deildarstjórarnir öðluðust færni í að skrá námssögur um hvert barn og framfarir þess en einnig hvernig þeim gengi að meta nám barnanna í samvinnu við foreldra og börnin sjálf. Þróun starfsaðferða við mat á námi barna var rædd og metin á mánaðarlegum fundum. Gagna var aflað með skráningu fundargerða, mati þátttakenda, ljósmyndum, myndböndum og námssögum sem þátttakendur ræddu og ígrunduðu á fundunum. Niðurstöður benda til þess að deildarstjórarnir hafi aukið færni sína í að skrá námssögur. Með þátttöku í verkefninu hafi þeir öðlast betri skilning á námi barna og innsýn í hugarheim þeirra. Þeir urðu meðvitaðri um samskipti barnanna við önnur börn, horfðu meira á hverjir styrkleikar þeirra væru og hvernig þá mætti nýta í námi og samskiptum. Fyrsta reynsla deildarstjóranna af því að fá samstarfsfólk sitt til að skrá námssögur benti til þess að starfsfólk leikskólanna þyrfti töluverðan stuðning og tíma til að tileinka sér aðferðina. Áform voru uppi innan leikskólanna um að halda þeirri vinnu áfram veturinn eftir með það að markmiði að leikskólakennarar og annað starfsfólk leikskólanna næðu færni í að nota námssögur sem matsaðferð með þátttöku foreldra og barnanna sjálfra. 

Um höfund (biographies)

Kristín Karlsdóttir

Kristín Karlsdóttir er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk M.Ed.-gráðu í Menntunarfræði frá Kennaraháskóla Íslands árið 2001 og vinnur nú að doktorsritgerð sem er á lokastigi. Ritgerðin lýsir af nákvæmni námsferli barna í daglegu starfi tveggja leikskóla sem starfa á gjörólíkan hátt og þeim margbreytilegu þáttum sem hafa áhrif á nám barna. Kristín er þátttakandi í verkefnum og rannsóknum sem tengjast skráningu og mat í leikskólastarfi og samfellu milli leikog grunnskóla. 

Anna Magnea Hreinsdóttir

Anna Magnea Hreinsdóttir er sviðsstjóri fræðslu og velferðarsviðs Borgarbyggðar. Hún lauk námi í tómstundafræðum frá Göteborgs folkhögskola, Svíþjóð árið 1980, B.Ed.-gráðu í leikskólafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999 og meistaraprófi frá sama skóla árið 2003. Árið 2009 lauk hún doktorsprófi í menntunarfræðum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún var til skamms tíma leikskólafulltrúi Garðabæjar og hefur unnið sem leikskólastjóri og rekið leikskóla í tugi ára. 

Niðurhal

Útgefið

2016-12-03

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar