Starfsfólk leikskóla þróar eigin starfshætti með ungum börnum

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2024/9

Lykilorð:

starfendarannsóknir, starfsþróun, ígrundun, leikskólastarf, yngstu börnin

Útdráttur

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna reynslu leikskólakennara og leiðbeinenda af þátttöku í starfendarannsókn þar sem tilgangurinn var að ýta undir starfsþróun og fagmennsku í leikskólastarfi með ungum börnum. Í rannsókninni er litið á starfsþróun sem formlega og óformlega menntun sem dýpkar og bætir hæfni og þekkingu kennara. Starfsþróun tengist daglegu starfi og leiðir til umbóta og þróunar. Fyrri rannsóknir sýna að starfendarannsóknir eru áhrifarík leið fyrir starfsþróun kennara og til að bæta starfshætti í skólastarfi. Starfendarannsóknin stóð yfir í fjögur ár og fór fram á sex deildum í þremur leikskólum þar sem börnin voru á aldrinum níu mánaða til tveggja og hálfs árs. Á rannsóknartímabilinu var leitast við að mynda lærdómssamfélag meðal allra starfsmanna á deildum, leikskólastjórnenda og tveggja rannsakenda frá Háskóla Íslands. Áhersla var lögð á að allir þátttakendur hefðu sama rétt til að koma skoðunum sínum á framfæri á öllum stigum rannsóknarinnar, óháð hlutverki þeirra. Í þessari rannsókn fór gagnaöflun fram í lok starfendarannsóknarinnar þar sem tekin voru viðtöl við þátttakendur. Viðtölin voru afrituð, kóðuð og þemagreind.

Niðurstöðurnar sýna að starfsfólki fannst rannsóknarferlið bæði lærdómsríkt og valdeflandi. Ferlið bauð upp á möguleika til að ígrunda eigin starfshætti og bæta þá. Samstarf og stuðningur voru mikilvægir þættir í ferlinu, bæði innan hvers leikskóla, milli leikskóla og við rannsakendur. Virk þátttaka starfsfólks í námi og framförum barnanna var faglega styrkjandi og hvetjandi í starfi. Þessi rannsókn bætir við þekkingu á hvernig starfendarannsóknir geta verið áhrifarík nálgun fyrir starfsþróun kennara og leiðbeinenda. Jafnframt varpar hún ljósi á mikilvægi þess að leikskólakennarar og aðrir sem starfa með börnum fái tækifæri og tíma til ígrundunar svo bæta megi starfshætti og menntun ungra barna.

Um höfund (biographies)

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir (ios@hi.is) er dósent í leikskólafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa einkum fjallað um leikinn, starf leikskólakennara, faglega þróun leikskólakennara og ferli starfendarannsókna. Ingibjörg Ósk hefur tekið þátt í ýmsum innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum um ólík viðfangsefni í tengslum við leikskólastarf, í samstarfi við leikskólakennara sem eru starfandi í leikskólum og við rannsakendur. Ingibjörg Ósk kennir í leikskólakennaranámi við Menntavísindasvið.

Hrönn Pálmadóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Hrönn Pálmadóttir (hropalm@hi.is) er dósent í leikskólafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún hefur víðtæka reynslu af vettvangi og sem kennari í leikskólakennaranámi. Helstu áherslusvið hennar í rannsóknum eru tjáning og samskipti yngstu leikskólabarnanna í leik og hlutverk leikskólakennara ásamt upphafi leikskólagöngu ungra barna. Hrönn hefur tekið þátt í bæði innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum um margvíslegar áskoranir í daglegu lífi barna í leikskólum.

Niðurhal

Útgefið

2024-07-22

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)