„Ég elska flæðið, minna stress, minna um árekstra“

Innleiðing flæðis í leikskólastarf

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2023/15

Útdráttur

Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvernig innleiðing flæðis í leikskólastarf getur stutt við samskipti barna og meðvitund starfsfólks um eigið hlutverk. Auk þess var sjónum beint að hlutverki faglegs leiðtoga í breytingaferli. Margar rannsóknir sýna að leikskólabörn læra best í gegnum leik þar sem áhugi þeirra og frumkvæði fær að njóta sín. Rannsóknir sýna jafnframt að flæðisskipulag í leikskólum veitir börnum meira vald yfir eigin námi sem styður um leið við vellíðan þeirra. Í rannsókninni sem hér segir frá er byggt á kenningu Csikszentmihalyi um flæði þar sem megináherslan er á frumkvæði og áhuga barna. Einnig er stuðst við kenningar um forystu þar sem litið er á mikilvægi hlutverks faglegs leiðtoga í að innleiða breytingar og styðja starfsfólk í því ferli.

Rannsóknin var með starfendarannsóknarsniði, fór fram í einum leikskóla og stóð yfir í tvö ár. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að aðferðafræði starfendarannsókna sé áhrifarík nálgun til að þróa starfshætti og innleiða breytingar. Gögnum var safnað með fjölbreyttum hætti, eins og viðtölum, vettvangsathugunum, ljósmyndum og dagbókarskrifum. Gögnin voru greind með þemagreiningu.

Niðurstöðurnar benda til þess að innleiðing flæðis hafi haft áhrif á samskipti barnanna í leikskólanum. Þau urðu glaðari og árekstrum þeirra á milli fækkaði. Starfsfólkið upplifði minni streitu í starfi og aukin tækifæri til sveigjanleika. Ígrundun og samtal á milli starfsfólks studdi það í að skilja og verða virkt í flæðisskipulaginu. Rannsóknin er mikilvægt innlegg í umræðu um leikskólastarf og styður einnig við hugmyndir um að starfendarannsóknir séu góð leið til að bæta skólastarf.

Um höfund (biographies)

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir (ios@hi.is) er dósent í leikskólafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa einkum fjallað um leikinn, starf leikskólakennara, faglega þróun leikskólakennara og ferli starfendarannsókna. Ingibjörg Ósk hefur tekið þátt í ýmsum innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum um ólík viðfangsefni í tengslum við leikskólastarf, í samstarfi við leikskólakennara sem eru starfandi í leikskólum og við rannsakendur. Ingibjörg Ósk kennir í leikskólakennaranámi við Menntavísindasvið.

Emilía Lilja Rakelar Gilbertsdóttir

Emilía Lilja Rakelar Gilbertsdóttir (egilbertsdottir@gmail.com) er sérkennslustjóri leikskóladeildar samrekins leik- og grunnskóla. Hún er með BA-próf í félagsráðgjöf og M.Ed.-gráðu í menntunarfræði leikskóla. Emilía tekur þátt í áframhaldandi rannsóknarstarfi um áhrif flæðis í leikskóla á börnin, grunnskólann og nærsamfélagið. flæðis í leikskóla á börnin, grunnskólann og nærsamfélagið.

Sigríður Þorbjörnsdóttir

Sigríður Þorbjörnsdóttir (siggamidengi@gmail.com) er deildarstjóri leikskóladeildar samrekins leik- og grunnskóla. Hún hefur lokið BS-prófi í sálfræði og M.Ed.-gráðu í menntunarfræði leikskóla. Sigríður tekur þátt í áframhaldandi rannsóknarstarfi um áhrif flæðis í leikskóla á börnin, grunnskólann og nærsamfélagið.

Niðurhal

Útgefið

2023-11-29

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar