„Mér líður eins og ég tilheyri, veit að hún lærir tungumálið fljótt.“ Foreldrar með fjölbreyttan bakgrunn og fullgildi við upphaf leikskólagöngu

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2022.9

Lykilorð:

upphaf leikskólagöngu, foreldrar, fjölbreyttur bakgrunnur, fullgildi

Útdráttur

Greinin er byggð á rannsókn þar sem leitast var við að skilja hvaða merkingu foreldrar með fjölbreyttan bakgrunn leggja í reynslu sína af samskiptum og þátttöku við upphaf leikskólagöngu barna sinna. Í rannsókninni er stuðst við hugtakið fullgildi sem er þýðing á enska hugtakinu belonging. Það vísar til tilfinningar einstaklingsins af félagslegum tengslum ásamt tækifærum til samskipta og þátttöku. Hugtakið fullgildi er margslungið og greinir Yuval-Davis (2006, 2011) á milli tilfinningalegs fullgildis (e. sense of belonging) og pólitísks fullgildis (e. politics of belonging). Fullgildi er talið tengjast grundvallarþörf manneskjunnar um að tilheyra fólki, stöðum eða hlutum. Reynsla fólks af því að tilheyra hafi þannig áhrif á nám, hegðun, vellíðan og sjálfsmynd þess (May, 2013; Stratigos o.fl., 2014). Eigindlegar rannsóknaraðferðir voru notaðar við öflun gagna. Tekin voru hálfopin viðtöl við átta foreldra sex barna; feður og mæður tveggja barna og mæður fjögurra barna. Börnin voru öll undir tveggja ára aldri og höfðu verið í leikskólanum frá tveimur upp í fimm mánuði þegar rannsóknin hófst. Foreldrar tveggja barna voru með erlendan bakgrunn, tvö barnanna með íslenskan bakgrunn og tvö þeirra með annað foreldri með erlendan bakgrunn. Tvö barnanna nutu sérstaks stuðnings í leikskólanum. Greining gagna fór fram með þemagreiningu, en hún er sveigjanleg aðferð sem notuð er til að skipuleggja og greina gögn (Braun og Clarke, 2013). Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að upphaf leikskólagöngu fól í sér miklar breytingar á lífi fjölskyldnanna. Val á leikskóla, þáttökuaðlögun og skipulag leikskólastarfsins sköpuðu mikilvægan grunn fyrir væntingar foreldranna af samskiptum og þátttöku í samfélagi leikskólans í framhaldinu. Í hugum foreldra var fullgildi samofið tilfinningunni af trausti og öryggi í garð leikskólans. Mikilvægt væri að leikskólinn stuðlaði að tengslum og samstarfi við foreldra, auk þess að leggja áherslu á tungumál og félagsleg samskipti barnanna í því augnamiði að þau upplifðu fullgildi innan barnahópsins.

Um höfund (biography)

Hrönn Pálmadóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Hrönn Pálmadóttir (hropalm@hi.is) er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í menntunarfræði ungra barna frá Háskóla Íslands árið 2015. Helstu áherslusvið í rannsóknum eru sjónarhorn yngstu leikskólabarnanna á samskipti og leik ásamt upphafi leikskólagöngu fjölbreytts hóps barna. Hrönn hefur tekið þátt í bæði norrænum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum um margvíslegar áskoranir í daglegu lífi barna í leikskólum.

Niðurhal

Útgefið

2022-08-16

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar