Kófið og leikskólinn: „Þetta var mögnuð „tilraun“ til að sjá gæðastarf verða til við skrítnar aðstæður“
##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.20Lykilorð:
COVID-19, leikskólastarf, leikur, hlutverk leikskólakennara, gæðastarfÚtdráttur
Leikskólastarf getur verið eins ólíkt á milli leikskóla og þeir eru margir, enda stjórnast dagskipulag hvers leikskóla af áherslum og sýn þeirra er þar starfa. Sýn starfsfólks á nám og börn endurspeglar áherslur þeirra í starfi. Nýlegar rannsóknir benda á að það sé mikilvægt að hafa jafnvægi á milli athafna sem stýrt er af starfsfólki og athafna sem börnin stýra. Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að taka tillit til þarfa og áhuga hvers barns þegar skipuleggja á leikskólastarfið. Jafnframt þarf að taka mið af réttindum barna og gefa þeim tækifæri til að hafa áhrif á nám sitt.
Markmið rannsóknarinnar sem hér er sagt frá var að skoða áhrif takmarkana á leikskólastarf vegna fyrstu bylgju COVID-19 faraldursins, á leik barna og hlutverk leikskólakennara og annars starfsfólks. Jafnframt að skoða hvaða lærdóm mætti draga af reynslunni af takmörkununum. Gögnum var safnað með blönduðum aðferðum (e. mixed methods), annars vegar í gegnum einstaklingsviðtöl við leikskólastjóra og deildarstjóra, og hins vegar í gegnum spurningalista sem voru sendir út til 248 leikskóla um allt land.
Niðurstöður benda til þess að takmarkanirnar hafi haft töluverð áhrif á leikskólastarf í landinu. Stjórnendur töldu að starfið hefði einkennst af meiri gæðum. Þeir töldu einnig að áhrif takmarkana hefðu skilað sér í aukinni vellíðan barna og fullorðinna. Takmarkanirnar urðu þó til þess að skerða þurfti aðgengi barnanna að leikefni. Þó að stjórnendur nefndu að ný vinatengsl hefðu myndast í barnahópnum þá kom einnig fram að einhver börn söknuðu vina sinna þegar takmörkun var á viðveru barnanna. Einhverjir starfsmenn upplifðu einnig einmanaleika þar sem samgangur á milli þeirra var takmarkaður. Rannsóknin er mikilvægt framlag til leikskólasamfélagsins og eykur skilning á þeim áhrifum sem takmarkanir á skólastarfi vegna fyrstu bylgju COVID-19 höfðu á leikskólastarf. Niðurstöðurnar benda til þess að mikilvægt sé að rýna í skipulag og starfshætti leikskóla landsins og huga að hvernig hægt sé að tryggja gæðastarf með leikskólabörnum.