Kófið og leikskólinn: „Þetta var mögnuð „tilraun“ til að sjá gæðastarf verða til við skrítnar aðstæður“

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.20

Lykilorð:

COVID-19, leikskólastarf, leikur, hlutverk leikskólakennara, gæðastarf

Útdráttur

Leikskólastarf getur verið eins ólíkt á milli leikskóla og þeir eru margir, enda stjórnast dagskipulag hvers leikskóla af áherslum og sýn þeirra er þar starfa. Sýn starfsfólks á nám og börn endurspeglar áherslur þeirra í starfi. Nýlegar rannsóknir benda á að það sé mikilvægt að hafa jafnvægi á milli athafna sem stýrt er af starfsfólki og athafna sem börnin stýra. Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að taka tillit til þarfa og áhuga hvers barns þegar skipuleggja á leikskólastarfið. Jafnframt þarf að taka mið af réttindum barna og gefa þeim tækifæri til að hafa áhrif á nám sitt.

Markmið rannsóknarinnar sem hér er sagt frá var að skoða áhrif takmarkana á leikskólastarf vegna fyrstu bylgju COVID-19 faraldursins, á leik barna og hlutverk leikskólakennara og annars starfsfólks. Jafnframt að skoða hvaða lærdóm mætti draga af reynslunni af takmörkununum. Gögnum var safnað með blönduðum aðferðum (e. mixed methods), annars vegar í gegnum einstaklingsviðtöl við leikskólastjóra og deildarstjóra, og hins vegar í gegnum spurningalista sem voru sendir út til 248 leikskóla um allt land.

Niðurstöður benda til þess að takmarkanirnar hafi haft töluverð áhrif á leikskólastarf í landinu. Stjórnendur töldu að starfið hefði einkennst af meiri gæðum. Þeir töldu einnig að áhrif takmarkana hefðu skilað sér í aukinni vellíðan barna og fullorðinna. Takmarkanirnar urðu þó til þess að skerða þurfti aðgengi barnanna að leikefni. Þó að stjórnendur nefndu að ný vinatengsl hefðu myndast í barnahópnum þá kom einnig fram að einhver börn söknuðu vina sinna þegar takmörkun var á viðveru barnanna. Einhverjir starfsmenn upplifðu einnig einmanaleika þar sem samgangur á milli þeirra var takmarkaður. Rannsóknin er mikilvægt framlag til leikskólasamfélagsins og eykur skilning á þeim áhrifum sem takmarkanir á skólastarfi vegna fyrstu bylgju COVID-19 höfðu á leikskólastarf. Niðurstöðurnar benda til þess að mikilvægt sé að rýna í skipulag og starfshætti leikskóla landsins og huga að hvernig hægt sé að tryggja gæðastarf með leikskólabörnum.

Um höfund (biographies)

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir (ios@hi.is) er lektor í leikskólafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa einkum fjallað um leikinn, starf leikskólakennara, faglega þróun leikskólakennara og ferli starfendarannsókna. Ingibjörg Ósk hefur tekið þátt ýmsum innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum um ólík viðfangsefni í tengslum við leikskólastarf, í samstarfi við leikskólakennara sem eru starfandi í leikskólum og við rannsakendur. Ingibjörg Ósk kennir í leikskólakennaranámi við Menntavísindasvið.

Svava Björg Mörk

Svava Björg Mörk (svavabm@hi.is) er doktorsnemandi og aðjúnkt í leikskólafræði og menntastjórnun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa einkum fjallað um samstarf hagsmunaaðila í leikskólakennaramenntun, fagmennsku leikskólakennara, leiðsögn leikskólakennaranema og lærdómssamfélag. Svava Björg rannsakar hvernig byggja megi upp samstarfssvæði í leikskólakennaramenntun á Íslandi. Svava Björg kennir í leikskólakennaranámi og stjórnunarnámi við Menntavísindasvið.

Niðurhal

Útgefið

2021-02-18