Samræðufélagar: Aðferð sem styður við íslenskunám fjöltyngdra nemenda

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2023.7

Lykilorð:

samræður, orðaforði, tví- og fjöltyngi, íslenska sem annað mál

Útdráttur

Fjöltyngdum nemendum af erlendum uppruna hefur fjölgað mikið í íslenskum grunnskólum á undanförnum árum. Margt bendir til þess að efla þurfi kennslu þessara nemenda til að þeir nái nægilega góðum tökum á íslensku. Í þessari grein er sagt frá íhlutunarrannsókn með kennsluaðferð sem byggist á samræðum. Aðferðin á uppruna sinn í Bretlandi og kallast þar Talking Partners en hefur fengið heitið Samræðufélagar í íslenskri þýðingu. Þrír fjöltyngdir nemendur í 2. bekk fengu tíu vikna kennslu með aðferðinni. Íslenskur orðaforði og málnotkun nemendanna voru metin fyrir og eftir íhlutun. Nemendurnir sem fengu kennslu með aðferðinni sýndu góðar framfarir í orðaforða og málnotkun og samanburður við viðmið fyrir eintyngd börn á sama aldri sýndi að framfarirnar voru meiri en almennt má gera ráð fyrir að verði á ekki lengri tíma. Niðurstöðurnar gefa því von um að þessi kennsluaðferð sé árangursrík og kennsluefnið Samræðufélagar geti nýst vel í íslenskum skólum.

Um höfund (biographies)

Rannveig Oddsdóttir, Háskólinn á Akureyri - Kennaradeild

Rannveig Oddsdóttir (rannveigo@unak.is) er lektor við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún lauk leikskólakennaranámi frá Fósturskóla Íslands 1994, meistaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands með áherslu á sérkennslu 2004 og doktorsprófi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands 2018. Rannveig kenndi um árabil í leik- og grunnskólum en hefur undanfarin ár sinnt kennslu, rannsóknum og ráðgjöf við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að málþroska, læsi og ritun leik- og grunnskólabarna.

Hermína Gunnþórsdóttir, Háskólinn á Akureyri - Kennarardeild

Hermína Gunnþórsdóttir (hermina@unak.is) er prófessor við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún hefur starfað við leik-, grunn- og framhaldsskóla og lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands 2014. Helstu viðfangsefni hennar í kennslu og rannsóknum tengjast félagslegu réttlæti í menntun, skóla og námi án aðgreiningar, fjölmenningu og fjöltyngi, fötlunarfræði, menntastefnu og framkvæmd.

Rannveig Sigurðardóttir

Rannveig Sigurðardóttir (rannvei@akmennt.is) starfar sem kennsluráðgjafi í skólaþjónustu Akureyrarbæjar. Hún lauk kennaranámi frá Háskólanum á Akureyri 1997 og meistaraprófi frá sama skóla 2019. Rannveig starfaði lengi sem kennari og síðar deildarstjóri við Oddeyrarskóla á Akureyri. Hún hefur einnig gegnt starfi verkefnastjóra námsaðlögunar í Giljaskóla á Akureyri. Megináherslur í starfi hennar hafa verið námsaðlögun í skóla án aðgreiningar, læsi á yngri stigum grunnskóla og kennsla fjöltyngdra barna.

Niðurhal

Útgefið

2023-04-24

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)