Foreldrasamstarf og fjölmenning - Samskipti deildarstjóra í leikskóla við erlenda foreldra sem ekki tala íslensku

Höfundar

  • Anna Lilja Sævarsdóttir
  • Anna Elísa Hreiðarsdóttir
  • Hermína Gunnþórsdóttir

Lykilorð:

leikskóli, foreldrasamstarf, fjölmenning, erlendir foreldrar, deildarstjórar í leikskóla, samskipti, stuðningur í starfi

Útdráttur

Í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011 er lögð rík áhersla á foreldrasamstarf og jafnrétti. Deildarstjórar í leikskólum bera höfuðábyrgð á samvinnu sinnar deildar við foreldra og áhugavert þótti að greina reynslu þeirra af því samstarfi með tilliti til fjölmenningar og menningarlegs margbreytileika. Í greininni er fjallað um hluta af niðurstöðum rannsóknar á reynslu deildarstjóra í leikskólum af samskiptum við erlenda foreldra sem ekki tala íslensku. Markmið rannsakenda var að fá sem raunsannasta mynd af reynslu deildarstjóranna af þessari hlið fjölmenningar í skólum og þeim björgum sem þeir nýttu sér í starfi. Gagna var aflað í ársbyrjun 2012 með megindlegum rannsóknaraðferðum. Rafrænir spurningalistar voru sendir til deildarstjóra í 91 leikskóla um allt land. Helstu niðurstöður eru þær að deildarstjórar telja sjálfir að samskipti við erlenda foreldra ganga að mestu leyti vel. Flestir nýta sér túlkaþjónustu til stuðnings og eru almennt duglegir að nýta aðrar bjargir og leita lausna þegar þarf. Stuðningur samstarfsfólks og stjórnenda virðist einnig góður og lítill hluti deildarstjóra lýsir neikvæðri reynslu eða óöryggi. Deildarstjórarnir telja erlenda foreldra í nokkrum mæli óörugga í samskiptum. Þá kemur fram að deildarstjórarnir telja að sveitarfélögin og fulltrúar þeirra mættu sinna betur upplýsingagjöf til deildarstjóra og skóla um stuðning og bjargir. Hagnýtt gildi þessarar rannsóknar fyrir leikskólastarf er að varpa ljósi á áhrif fjölmenningar á foreldrasamstarf. Að auki er akkur í að fram komi rannsóknir sem snúa að samskiptum leikskóla og foreldra í ljósi aukinnar áherslu á samstarf þessara aðila á jafnréttisgrunni.

Um höfund (biographies)

Anna Lilja Sævarsdóttir

Anna Lilja Sævarsdóttir (annalilja@akmennt.is) er deildarstjóri við leikskólann Iðavöll á Akureyri. Hún lauk B.Ed.gráðu sem leikskólakennari frá Háskólanum á Akureyri árið 2002 og M.Ed prófi með áherslu á stjórnun frá sama háskóla árið 2012. Anna Lilja hóf störf á Iðavelli árið 2001 og tók árið 2005 við sem deildarstjóri þriggja ára deildar. Hún hefur tekið þátt í ýmsu þróunarstarfi innan leikskólans, tekið þátt í norrænu samstarfi og verið áheyrnarfulltrúi leikskólakennara í skólanefnd Akureyrarbæjar. Rannsóknir hafa snúið að tvítyngdum börnum og erlendum leikskólaforeldrum.

Anna Elísa Hreiðarsdóttir

Anna Elísa Hreiðarsdóttir (annaelisa@unak.is) er lektor við kennaradeild Háskólans á Akureyri og brautarstjóri kennarabrautar. Hún brautskráðist frá Fósturskóla Íslands árið 1990 sem fóstra, lauk B.Ed.gráðu frá Háskólanum á Akureyri árið 2000 og M.Ed.prófi sex árum síðar frá sama skóla. Anna starfaði um árabil sem leikskólastjóri, aðstoðarleikskólastjóri og deildarstjóri í leikskóla. Rannsóknir hennar og þróunarverkefni snúa meðal annars að foreldrasamstarfi í leikskóla, jafnréttiskennslu yngri barna og starfi með elstu börnum leikskólans.

Hermína Gunnþórsdóttir

Hermína Gunnþórsdóttir (hermina@unak.is) er lektor við Háskólann á Akureyri. Hún lauk B.A.prófi í íslensku og uppeldis og kennslufræði frá Háskóla Íslands og meistaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands. Hún hefur starfað við leik, grunn og framhaldsskóla. Hermína stundar doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Helstu viðfangsefni hennar í kennslu
og rannsóknum eru skóli og nám án aðgreiningar, fjölmenning og nám, fötlunarfræði, menntastefna og framkvæmd hennar.

Niðurhal

Útgefið

2016-12-03

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar