Hvað ræður mishröðum framförum í textaritun barna? Langtímarannsókn á ritun frásagna og upplýsingatexta í 2.–4. bekk

Höfundar

  • Rannveig Oddsdóttir
  • Hrafnhildur Ragnarsdóttir
  • Steinunn Gestsdóttir

Lykilorð:

ritun, textagerð, frásögn, upplýsingatexti

Útdráttur

 Í fyrstu bekkjum grunnskóla eru börn að ná tökum á táknkerfi ritmálsins og byrja að spreyta sig á því að setja saman ritaða texta. Framfarir í textaritun eru háðar mörgum samverkandi þáttum, svo sem færni í umskráningu, tökum á tungumálinu og sjálfstjórn, auk þess sem sú kennsla sem börn fá hefur mikið að segja. Framvindan getur því verið ólík og mishröð hjá einstaklingum. Markmið rannsóknarinnar sem hér er kynnt var að skoða einstaklingsmun á framförum í textaritun íslenskra barna í 2.–4. bekk, athuga hvort framfarir barnanna væru samstiga í tveimur ólíkum textategundum, frásögnum og upplýsingatextum, og kanna hvort sjá mætti tengsl á milli framfara barnanna og stöðu þeirra í umskráningu, orðaforða og sjálfstjórn. Ritunarverkefni voru lögð fyrir 45 börn með árs millibili í 2., 3. og 4. bekk og mælingar á sjálfstjórn, umskráningu og orðaforða nýttar til að kanna áhrif þessara þátta á framfarir í rituninni. Mikill einstaklingsmunur var á frammistöðu barnanna og framförum þeirra milli ára. Sumum fór lítið sem ekkert fram á meðan önnur tóku stórstígum framförum. Það reyndist ekki vera marktæk fylgni milli framfara í textategundunum tveimur, en þó var fátítt að börn sýndu mjög góða framvindu í annarri textategundinni en slaka í hinni. Engin einhlít skýring fannst á þessum mikla einstaklingsmun. Í sumum tilvikum má þó rekja slaka stöðu og litlar framfarir til erfiðleika með umskráningu og einnig má sjá þess merki að styrkur í umskráningarfærni, orðaforða og sjálfstjórn skili sér í betri textum og meiri framförum. Athygli vekur að þau börn sem voru skemmst á veg komin í textaritun í upphafi rannsóknarinnar sýndu almennt meiri framfarir en þau sem sterkar stóðu í byrjun. Það gæti verið vísbending um að kennslan mæti ekki nægilega vel þörfum barna eftir að grundvallarfærni í ritun er náð og að þau fái ekki nægilegan stuðning við að þróa textaritun sína áfram.

Um höfund (biographies)

Rannveig Oddsdóttir

Rannveig Oddsdóttir (rannodd@hi.is) er doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og eru þær niðurstöður sem hér er gerð grein fyrir hluti af doktorsrannsókn hennar á þróun ritunar og textagerðar 4–9 ára barna. Rannveig lauk leikskólakennaranámi frá Fósturskóla Íslands 1994 og meistaranámi frá Kennaraháskóla Íslands með áherslu á sérkennslu 2004 og kenndi um árabil í leik- og grunnskólum en starfar nú sem sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. 

Hrafnhildur Ragnarsdóttir

Hrafnhildur Ragnarsdóttir (hragnars@hi.is) er prófessor í þroskavísindum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi barna og unglinga. Hún lauk doktorsprófi í sálfræði og menntavísindum frá Université d´Aix-Marseille 1990. Rannsóknarsvið hennar eru málþroski barna og þróun málnotkunar og textagerðar í ræðu og riti frá frumbernsku til fullorðinsára og tengsl málþroska og málnotkunar við aðra þroskaþætti og læsi. Freyja Birgisdóttir (freybi@hi.is) er með doktorspróf í sálfræði frá Oxfordháskóla og er nú dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Meginrannsóknarsvið hennar er þróun máls og læsis á leik- og grunnskólaaldri og hvernig sú þróun tengist öðrum hliðum þroska. 

Steinunn Gestsdóttir

Steinunn Gestsdóttir (steinuge@hi.is) lauk doktorsprófi í þroskasálfræði frá Tufts-háskóla í Bandaríkjunum 2005. Steinunn er prófessor í sálfræði við Sálfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Rannsóknir Steinunnar hafa snúið að þróun sjálfstjórnunar barna og ungmenna og hvernig hún tengist farsælli þroskaframvindu, sérstaklega aðlögun barna að grunnskóla og námsgengi, og tengslum sjálfstjórnunar við farsælan þroska og áhættuhegðun á unglingsaldri. 

Niðurhal

Útgefið

2016-12-04

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar