Að tilheyra í skólanum: Áhrifaþættir á upplifun grunnskólanema

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2021.10

Lykilorð:

Að tilheyra, upplifun grunnskólanemenda, skólasamfélag, menntun án aðgreiningar, félagsleg samsömun

Útdráttur

Stór áhrifaþáttur á farsæld nemenda er að þeir upplifi og finni að þeir tilheyri skólasamfélaginu og að þeim sé tekið eins og þeir eru af nemendum og kennurum. Markmið þessarar greinar er að varpa ljósi á hvernig félagslegir þættir líkt og kyn nemenda, fjárhagsstaða og erlendur uppruni móta upplifun þeirra af að tilheyra eða tilheyra ekki í skólasamfélaginu. Einnig að kanna hvort áhættuhegðun, samskipti við foreldra og sjálfsmynd hafi áhrif á hvernig félagslegir þættir móta upplifun af að tilheyra. Byggt er á gögnum úr rannsókninni Heilsa og lífskjör skólabarna (HBSC). Rafræn spurningakönnun var lögð fyrir nemendur veturinn 2017–2018 í 6., 8. og 10. bekk. Niðurstöður sýna að almennt séð upplifa nemendur íslenskra grunnskóla að þeir tilheyri í skólaumhverfinu og aðeins litlum hópi finnst hann ekki tilheyra. Að búa við slæma fjárhagsstöðu og að skilgreina sig utan hefðbundinnar kyntvíhyggju hefur mest áhrif á að nemendur telji sig síður tilheyra skólasamfélaginu. Ekki mældist marktækur munur almennt séð á milli drengja og stúlkna. Slæm fjárhagsstaða hafði mest áhrif á samsömun kynsegin nemenda og stúlkna við skólasamfélagið, en drengir urðu síður fyrir áhrifum slæmrar fjárhagsstöðu. Þá hafði áhættuhegðun mun sterkari tengsl við tilfinningu drengja að tilheyra fremur en stúlkna, en slök sjálfsmynd stúlkna var frekar tengd upplifun þeirra af því tilheyra ekki. Sterk samvirkni var á milli þess að eiga báða foreldra fædda erlendis og að búa við slæman fjárhag. Öflug sjálfsmynd hafði jákvæð áhrif á samsömun nemenda sem bjuggu við slæma fjárhagsstöðu. Niðurstöður gefa til kynna að grípa þurfi til aðgerða til að tryggja aðild allra að skólasamfélaginu og horfa sérstaklega til jaðarsettra nemenda

Um höfund (biographies)

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Háskóli Íslands

Kolbrún Þ. Pálsdóttir (kolbrunp@hi.is) er dósent og forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í heimspeki 1997, MA-gráðu í menntunarfræðum 2001 og PhD-gráðu í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands árið 2012. Rannsóknarsvið hennar eru meðal annars skóla- og frístundastarf, formleg og óformleg menntun, virk þátttaka og sjónarhorn barna.

Kolbeinn Hólmar Stefánsson, Háskóli Íslands

Kolbeinn Hólmar Stefánsson er dósent í félagsfræði við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í félagsfræði frá Oxford-háskóla árið 2013. Rannsóknarsvið Kolbeins beinast einkum að félagslegri lagskiptingu, lífsgæðum og jöfnuði, fátækt barna og gagnreyndri stefnumótun.

Hermína Gunnþórsdóttir, Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri

Hermína Gunnþórsdóttir (hermina@hi.is/hermina@unak.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún hefur starfað við leik-, grunn- og framhaldsskóla og lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands 2014. Helstu viðfangsefni hennar í kennslu og rannsóknum tengjast félagslegu réttlæti í menntun, skóla og námi án aðgreiningar, fjölmenningu og menntun, fötlunarfræði, menntastefnu og framkvæmd.

Niðurhal

Útgefið

2022-02-08

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)