„Þakklát fyrir reynsluna en ekki fyrir krabbameinið“: Upplifun ungra kvenna af krabbameini og lærdómur þeirrar reynslu

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270//netla.2025/16

Lykilorð:

krabbamein, ungar konur, jákvæð sálfræði, áfallaþroski

Útdráttur

Í greininni er fjallað um rannsókn á upplifun fjögurra ungra kvenna sem greindust með krabbamein og lærdómi þeirrar lífsreynslu. Þátttakendur eiga það sameiginlegt að hafa skrifað um reynslu sína þegar þær gengu í gegnum krabbameinsmeðferð. Rýnt er í frásagnir sem deilt var á samfélagsmiðlinum Instagram og útgefin ljóð í því skyni að fá innsýn í líf þeirra á þeim tíma sem þær veikjast og takast á við nýjan veruleika. Auk þess byggja niðurstöður rannsóknarinnar á djúpviðtölum sem tekin voru við sömu konur að nokkrum árum liðnum og varpa ljósi á lærdóm sem þær draga í kjölfar veikindanna. Hér er um eigindlega rannsókn að ræða sem byggir á fyrirbærafræðilegri nálgun þar sem horft er til lífsreynslu fólks og þeirrar merkingar sem í hana er lögð. Í niðurstöðum rannsóknarinnar eru dregin fram þemu sem endurspegla tilfinningaleg átök, breytingar á sjálfsmynd og jákvætt hugarfar í gegnum sársaukafullt ferli, sem jafnframt einkennist af þakklæti, kærleika og fegurð. Þegar síðar er litið um öxl kemur í ljós að veikindin hafa haft þýðingarmikil áhrif á líf þátttakenda, ekki síst varðandi tengsl þeirra við sig sjálfar, annað fólk og lífið sjálft. Rannsóknarefnið er skoðað af fræðilegum sjónarhóli jákvæðrar sálfræði, einkum annarrar bylgju hennar, þar sem horft er til tengsla áfalla og hamingju. Þar að auki er byggt á kenningu um áfallaþroska sem felur í sér þann möguleika að áföll geti stutt við persónulegan þroska fólks og innihaldsríkt líf. Rannsóknir á því sviði hafa fram til þessa verið fátíðar hér á landi. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar felst í auknum skilningi á viðkvæmri stöðu ungra kvenna sem greinast með krabbamein og niðurstöður hennar gefa vísbendingar um hvaða þættir geta verið mikilvægir til að styðja við þann hóp á farsælan hátt.

Um höfund (biographies)

  • Ebba Áslaug Kristjánsdóttir

    Ebba Áslaug Kristjánsdóttir (ebbaaslaugk@gmail.com) er grunnskólakennari. Hún útskrifaðist með B.Ed-gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 1998 og hefur starfað við kennslu síðan. Árið 2021 lauk hún diplómanámi í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun Háskóla Íslands og útskrifaðist með MA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands árið 2024. Rannsóknaráhugi hennar beinist einkum að heimspeki menntunar, farsæld og áfallaþroska.

  • Ingibjörg V. Kaldalóns, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Ingibjörg V. Kaldalóns (ingakald@hi.is) er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í stjórnmála- og félagsfræði frá Félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1993, MA-gráðu í félagsfræði frá sömu deild 1996 og doktorsprófi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands árið 2015. Rannsóknarsvið Ingibjargar beinist að velfarnaði nemenda og kennara í skólastarfi; með áherslu á sjálfræði, seiglu, félags- og tilfinningahæfni ásamt rannsóknum á sviði áfallaþroska.

Niðurhal

Útgefið

2025-09-22

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar