„Ég held ég hafi bara ekki vitað hvað hamingja var áður en þau fæddust“: Upplifun feðra af hamingju

Höfundar

  • Pála Margrét Gunnarsdóttir Háskóli Íslands
  • Ingibjörg V. Kaldalóns Háskóli Íslands
  • Hrund Þórarnis Ingudóttir Háskóli Íslands

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2021.17

Lykilorð:

hamingja, hamingjukenningar, feður, föðurhlutverkið, fyrirbærafræði

Útdráttur

Lítið er um rannsóknir á áhrifum barneigna og barnauppeldis á hamingju feðra. Markmið þessarar rannsóknar var að öðlast aukinn skilning á hvernig feður upplifa hamingju við að eignast og eiga börn. Fyrirbærafræðilegri nálgun var beitt, þar sem tekin voru opin viðtöl við níu feður. Þeir áttu tvö til þrjú börn, 13 ára eða yngri, og bjuggu allir með barnsmóður sinni. Upplifun feðranna á hamingju var skoðuð út frá þremur kenningum um hamingju; kenningu um jákvæðar tilfinningar, sjálfsákvörðunarkenningu um farsæld og sálrænar grunnþarfir, og kenningu um hamingju út frá auknum lífstilgangi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að feðurnir upplifðu hamingjuna á annan hátt eftir að þeir eignuðust börn. Þeir upplifðu meira af jákvæðum tilfinningum; djúpstæðri ást, gleði og þakklæti eftir að þeir eignuðust börnin en áður. Feðurnir tengdu hamingjuna því að hve miklu leyti þeir gætu ráðið sér sjálfir, hversu hæfir þeir töldu sig vera til að sinna foreldrahlutverkinu og hvernig þeir tengdust börnunum. Einnig lýstu þeir auknum lífstilgangi eftir að þeir eignuðust börnin og að hamingjan yrði merkingarbærri og innihaldsríkari. Þrátt fyrir að lífið með börnunum veitti þeim hamingju töldu þeir það líka krefjandi og að mörgu leyti erfiðara en áður, þar sem þeir leituðust við að sinna uppeldi, samræma vinnu og fjölskyldulíf og hafa tíma fyrir maka, vini og áhugamál. Í heildina virtist það þó engu máli skipta í samanburði við þá hamingju sem börnin veittu þeim. Ekki er vitað til þess að hamingja feðra hafi verið rannsökuð með þessum hætti áður. Rannsóknin er mikilvægt framlag til rannsókna á hamingju innan jákvæðrar sálfræði sem og rannsókna á upplifun feðra af hlutverki sínu.

Um höfund (biographies)

Pála Margrét Gunnarsdóttir, Háskóli Íslands

Pála Margrét Gunnarsdóttir (pmg@hi.is) er aðjunkt í uppeldis- og menntunarfræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Pála Margrét lauk BA-prófi í uppeldis- og menntunarfræði (2016) og MA-prófi í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf (2019) frá Háskóla Íslands. Meistaraverkefni Pálu Margrétar fjallaði um hvernig feður upplifa að eignast og eiga börn og hvernig sú upplifun tengist auknum þroska, hamingju og lífstilgangi, út frá kenningum jákvæðrar sálfræði. Þessi grein er byggð á niðurstöðum meistaraverkefnisins.

Ingibjörg V. Kaldalóns, Háskóli Íslands

Ingibjörg V. Kaldalóns (ingakald@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í stjórnmála- og félagsfræði frá Félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1993, MA-gráðu í félagsfræði frá sömu deild 1996 og doktorsprófi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands árið 2015. Í rannsóknum sínum hefur Ingibjörg einkum beint sjónum að starfsháttum í grunnskólum, þátttöku, sjálfræði og þrautseigju nemenda í skólastarfi sem og velfarnaði nemenda og kennara.

Hrund Þórarnis Ingudóttir, Háskóli Íslands

Hrund Þórarins Ingudóttir (hrundin@hi.is) er lektor í uppeldis- og menntunarfræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hrund lauk bakkalárprófi (2006), meistaraprófi (2008) og doktorsprófi (2015) í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands. Hrund stundaði nám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf við University of Minnesota sem hluta af doktorsnámi sínu. Helstu rannsóknarsvið Hrundar eru uppeldissýn foreldra sem og þróun foreldrafræðslu og uppeldisráðgjafar á Íslandi.

Niðurhal

Útgefið

2021-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar