Kulnun grunnskólakennara

Stuðningur í starfsumhverfinu og áfallaþroski

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2023/13

Útdráttur

Markmiðið með rannsókninni var að öðlast skilning á upplifun og reynslu grunnskólakennara af kulnun og þeim áhrifum sem starfsumhverfi hefur á kulnun grunnskólakennaranna að þeirra eigin mati. Stuðningur úr starfsumhverfinu var skoðaður í ljósi sjálfsákvörðunarkenninga Ryan og Deci (2017) um hvernig unnt sé að mæta sálrænum grunnþörfum þeirra fyrir sjálfræði, hæfni og félagstengsl. Einnig var sjónum beint að hvort og þá hvaða persónulega lærdóm, svokallaðan áfallaþroska, kennarar draga af þeirri reynslu að hafa lent í kulnun. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem upplifa áfallaþroska finna fyrir breytingum á þremur sviðum í lífi sínu; breyttri lífssýn, breyttum tengslum við aðra og breyttri og sterkari sjálfsmynd. Fyrirbærafræðilegri nálgun var beitt þar sem tekin voru djúpviðtöl við sjö starfandi grunnskólakennara sem höfðu lent í kulnun og snúið aftur til kennslu. Niðurstöður sýndu að það sem réð mestu var andlegt og líkamlegt álag sem og skortur á stuðningi á vinnustaðnum. Álagið fólst í að kennararnir þurftu að sinna mörgum mismunandi hlutverkum sem gátu stangast á. Þeim fannst sig oft skorta sjálfræði í störfum sínum og upplifðu að þeir hefðu hvorki hæfni né bjargir til að sinna þessum mismunandi hlutverkum. Í kjölfarið upplifðu þeir vanmátt og skömm. Stuðningur í starfsumhverfi kennaranna skipti þá sköpum, að finna að þeir skiptu aðra máli og upplifa að þeir tilheyrðu hóp. Kennararnir upplifðu allir að lífið væri á einhvern hátt betra en áður en þeir lentu í kulnun. Þeir töldu sig hafa nýja og breytta lífssýn, vera þakklátari fyrir daglegt líf, hafa breytta og sterkari sjálfsmynd og vera meðvitaðri um að rækta tengsl við fólk sem væri þeim mikilvægt. Rannsóknin varpar auknum skilningi á þann lærdóm sem draga má af kulnun og hvernig starfsumhverfið getur stutt kennara. Þannig má vonandi fækka í hópi kennara sem hverfa frá störfum vegna kulnunar.

Um höfund (biographies)

Þórdís Lilja Ævarsdóttir

Þórdís Lilja Ævarsdóttir (thordisa@hotmail.com) útskrifaðist með BS-gráðu í alþjóðasamskiptum frá James Madison University árið 2002 og með MA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á jákvæða sálfræði frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands í október 2022, auk þess að hafa lokið viðbótarnámi í jákvæðri sálfræði árið 2020. Rannsóknaráhugi hennar beinist að velfarnaði, sjálfræði, áfallaþroska, skömm og áhrifum umhverfis á félags- og tilfinningahæfni og þroska.

Ingibjörg V. Kaldalóns, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Ingibjörg V. Kaldalóns (ingakald@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í stjórnmála- og félagsfræði frá Félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1993, MA-gráðu í félagsfræði frá sömu deild 1996 og doktorsprófi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands árið 2015. Í rannsóknum sínum hefur Ingibjörg einkum beint sjónum að velfarnaði og áhuga kennara og nemenda í skólastarfi; með áherslu á sjálfræði, sjálfsstjórn, félags- og tilfinningahæfni og seiglu.

Niðurhal

Útgefið

2023-10-25

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar