„Ég er alltaf glaðari og ég er miklu sjálfstæðari en ég var“: Starfshættir í grunnskóla sem styður sjálfræði nemenda

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.12

Lykilorð:

Stuðningur við sjálfræði, sjálfsákvörðunarkenningar, starfshættir í skólastarfi, reynsla nemenda

Útdráttur

Viðfangsefni þessarar greinar er að varpa ljósi á starfshætti í grunnskóla sem hefur sjálfsákvörðunarkenningar að faglegu leiðarljósi. Samkvæmt þeim er sjálfræði nemenda grundvöllur sjálfstjórnar, áhuga og velfarnaðar í námi og því mikilvægt að styðja sjálfræði nemenda. Rannsóknir í íslenskum grunnskólum á stuðningi við sjálfræði eru fáar, en rannsókn frá 2015 sýnir að hann er víða lítill. Hér er sagt frá tilviksrannsókn í 8.–10. bekk þar sem gerð var vettvangsathugun sjö skóladaga vorið 2018 og fimm daga vorið 2019, tekin þrjú rýnihópaviðtöl við fjóra nemendur (samtals 12) og átta einstaklingsviðtöl við fimm starfsmenn. Einnig var unnið úr gögnum úr sjálfsmati skólans. Markmið með rannsókninni var að kanna hvort og hvernig áherslur og starfshættir í grunnskólanum NÚ styðja sjálfræði nemenda og kanna upplifun og reynslu nemenda af þeim. Rannsókninni er ætlað að varpa ljósi á starfshætti sem styðja sjálfræði nemenda og gildi þeirra fyrir nemendur. Niðurstöður sýndu að víða mátti sjá stuðning við sjálfræði nemenda í skólastarfinu, til dæmis með möguleikum nemenda á vali og hvetjandi samskiptum. Formgerð sem er ætlað að styðja sjálfræði nemenda er í stöðugri þróun. Til dæmis var hannað hvatakerfi sem umbunar nemendum með auknu frelsi fyrir verkefnaskil og góða framkomu. Vendinám, leiðsagnarmat og upplýsingatækni gegndu jafnframt lykilhlutverki í að halda utan um nám og verkefnaskil hvers nemanda. Þá var áhersla á sjálfsskoðun nemenda og persónulegan vöxt fléttuð inn í allt skólastarfið, til dæmis með núvitundarkennslu, markþjálfasamtölum og hugarfarsþjálfun. Reynsla nemenda af skólastarfinu var góð. Þeir töldu að skólavistin efldi sjálfstæði þeirra, þeim fannst gaman í skólanum og þeir fundu tilgang með námi sínu við skólann. Margt má læra af starfsháttum skóla þar sem stöðugt er verið að þróa námsskipulag sem styður vöxt og sjálfræði nemenda, auk þess sem jafnframt er stuðlað að ánægju og sjálfsábyrgð nemenda.

Um höfund (biography)

Ingibjörg V. Kaldalóns

Ingibjörg Kaldalóns (ingakald@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í stjórnmála- og félagsfræði frá Félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1993, MA-gráðu í félagsfræði frá sömu deild 1996 og doktorsprófi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands árið 2015. Í rannsóknum sínum hefur Ingibjörg einkum beint sjónum að starfsháttum í grunnskólum, þátttöku, sjálfræði og þrautseigju nemenda í skólastarfi sem og velfarnaði nemenda og kennara.

Niðurhal

Útgefið

2021-02-05

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar