Draumaskólinn

Lýðræðisleg og inngildandi samvinnurými barna og fullorðinna í grunnskóla

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2024/8

Lykilorð:

inngildandi skólastarf, menntun fyrir alla, starfendarannsóknir, þátttaka barna, inngildandi kennslufræði, nemendalýðræði

Útdráttur

Virk þátttaka barna í samfélagi er ein leið til farsældar þeirra og því er það helsta verkefni menntakerfisins að tryggja öllum börnum hlutdeild í samfélagi jafnaldra. Greinin fjallar um þróun árangursríkra og sjálfbærra leiða fyrir samvinnu barna og fullorðinna í inngildandi skólastarfi. Draumaskólaverkefnið var unnið á miðstigi grunnskóla sem hluti af þróunarverkefni um þátttöku og valdeflingu barna í samstarfi skólans, frístundamiðstöðvar og rannsakenda Háskóla Íslands. Þátttakendur voru börn og starfsfólk í fimmta og sjötta bekk. Samofin Draumaskólaverkefninu var starfendarannsókn sem náði yfir fimm samvinnulotur, sem fólu í sér skapandi hugmyndavinnu, samtal, áætlanagerð, framkvæmd hugmynda, ígrundun og þekkingarsköpun. Í rannsóknarferlinu var lögð áhersla á að skilja það ferli sem á sér stað þegar samvinna barna og fullorðinna er mótuð og bera kennsl á þá þætti sem skipta máli fyrir valdeflingu barna. Hægt var að greina fjögur þýðingarmikil atriði: Ferli verkefnisins var farvegur fyrir raddir barna, lýðræðisleg og opin samvinnurými veittu svigrúm fyrir ólíkar þátttökuleiðir, sameiginleg ígrundun barna og fullorðinna leiddi til lausna og verkefnið setti í gang valdeflandi náms- og þróunarferli. Frásögn Draumaskólaverkefnisins getur orðið öðrum hvatning til að finna leiðir sem opna fyrir lýðræðisleg vinnubrögð í skóla.

Um höfund (biographies)

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg (ruth@hi.is) er aðjunkt á þroskaþjálfafræðibraut við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og stundar þar einnig doktorsnám. Ruth lauk bakkalárgráðu í þroskaþjálfun frá Kennaraháskóla Íslands árið 2003 og meistaragráðu í þroskaþjálfafræðum frá Háskóla Íslands árið 2015. Ruth hefur áralanga reynslu sem þroskaþjálfi í grunnskóla og á frístundasviði. Áhersla í starfi hennar og rannsóknum er þátttaka barna í þróun inngildandi skóla- og frístundastarfs og hefur hún nýtt og kannað aðferðafræði þátttöku-starfendarannsókna í þeim tilgangi. Hún hefur kynnt sínar rannsóknir á innlendum og erlendum ráðstefnum.

Hafdís Guðjónsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Hafdís Guðjónsdóttir (hafdgud@hi.is) er prófessor emerita en hún starfaði áður við Kennaraháskóla Íslands og síðan Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Á fyrri hluta starfsferilsins starfaði hún sem kennari við grunnskóla í Reykjavík og Hafnarfirði og sinnti bæði bekkjar- og sérkennslu. Rannsóknir hennar byggjast aðallega á eigindlegum rannsóknum, starfstengdri sjálfsrýni og starfendarannsóknum. Í rannsóknum sínum leggur hún áherslu á menntun fyrir alla, fjölmenningarlega kennslu, kennslufræði grunnskóla, starfsþróun kennara og fagmennsku, en einnig á kennaramenntun, kennslufræði kennaramenntunarkennara og þróun kennaramenntenda. Hún hefur birt fjölda greina og kafla en einnig hefur hún verið ritstjóri tveggja tímarita; Tímarit um uppeldi menntun og Teaching and Teacher Education, en því starfi sinnir hún enn.

Niðurhal

Útgefið

2024-05-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar