Inngangur að riti um grunnskólakennara

Sögur af öflugum, hugmyndaríkum og skapandi kennurum

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2023.12

Útdráttur

Það greinasafn sem hér birtist hefur fengið titilinn Þau skiptu máli – sögur grunnskólakennara. Markmiðið var að gefa út rit um grunnskólakennara sem hafa vakið athygli fyrir störf sín við kennslu í þeim tilgangi að halda á lofti eftirtektarverðu skólastarfi og gefa næstu kynslóðum kennara tækifæri til að kynnast starfi fyrirmyndarkennara.

Við höfundar þessarar yfirlitsgreinar að ritinu höfum allan okkar starfsferil unnið sem kennarar, fyrst í grunnskóla og síðar við kennaramenntun. Á kennsluferlinum í grunnskóla kynntumst við mörgum framsæknum kennurum og fengum tækifæri til að taka þátt í margs konar þróunarstarfi. Í starfi okkar með kennaranemum höfum við endurtekið orðið varar við að þeir telja margir að skólastarf á Íslandi hafi alltaf verið hefðbundið og litlar framfarir orðið. Þegar við höfum kynnt þeim skapandi vinnubrögð sem byggja á samvinnu og sýn á nemendur, sem öfluga gerendur í eigin námi, höfum við oft heyrt setningar eins og: „Ég vildi að við hefðum fengið að vinna svona þegar ég var í skóla. Við vorum alltaf bara að vinna verkefni í vinnubókum, áttum að vinna þegjandi og sitja stillt og prúð.“ Þetta hefur vakið okkur til umhugsunar um hve mikilvægt er að raddir kennara fái að heyrast og þeir fái að segja sögur sínar. Í rannsóknum okkar höfum við allar valið að vinna með kennurum og rýnt í hvernig jákvæð sýn þeirra á menntun og öflugt þróunarstarf getur leitt til þess að skapa námsumhverfi þar sem nemendur fá að njóta sín á eigin forsendum. Niðurstöður þeirra rannsókna hafa orðið til þess að efla trú okkar á að mikilvægt sé að birta sögur framsækinna kennara sem hafa verið öflugir í þróunarstarfi og nýtt reynslu sína til að stuðla að samvinnu kennara.

Hugmyndin að bók eða greinasafni varð til og skyldi hver grein fjalla um einn kennara sem segði sögu sína og hvernig hann hefði unnið starf sitt. Við fengum til liðs við okkur samstarfsfólk okkar sem við vissum að hefði unnið með kennurum sem höfðu áhugaverða sögu að segja. Hver rannsakandi valdi kennara til þátttöku og hafði að leiðarljósi við valið að þeir væru eða hefðu verið sjálfstæðir í starfi, ekki látið segja sér fyrir verkum umhugsunarlaust, tekið af skarið varðandi kennslumál, verið frumkvöðlar og óhræddir við að prófa sig áfram í kennslu. Afraksturinn birtist hér í greinasafni þar sem sagt er frá starfi 10 kennara.

Við byrjum á að kynna efni ritsins með stuttri samantekt um hverja grein. Fyrst er fjallað um kennara sem hófu kennslu um miðja síðustu öld, næst um þá sem byrjuðu síðar og í lokin um kennara sem hóf kennslu á 21. öld. Þá fjöllum við um rannsóknaraðferðir sem höfundar greinanna byggja á við rannsóknir sínar á störfum kennaranna. Síðan vörpum við ljósi á hvernig þróun menntastefnu á Íslandi birtist í lögum og námskrám á þeim tíma sem kennararnir störfuðu og drögum að lokum saman hvernig við sjáum hana birtast í frásögnum kennaranna

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31