Framsækinn kennari sem hlúði að nemendum

Jón Freyr Þórarinsson

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2023.11

Lykilorð:

framsæknir kennsluhættir, hópvinna, vinnubókargerð, námstækni, félagsleg tengsl, Jón Freyr Þórarinsson

Útdráttur

Áhersla á skapandi vinnubrögð nemenda, samvinnu og sjálfstæði þeirra hefur lengi verið ríkur þáttur í skólastarfi á Íslandi þó margir telji að slíkt hafi ekki tíðkast. Tilgangurinn með þessari grein er að gefa innsýn í starf kennara fyrir 60 árum sem lagði áherslu á samvinnu, upplýsingamiðaða kennslu, sjálfstæð vinnubrögð nemenda og uppeldisfræði sem tekur mið af börnum og jafnréttishugsjón. Jón Freyr Þórarinsson var umsjónarkennari okkar höfundanna í fimm ár og hafði mikil áhrif á okkur og sýn okkar á kennslu. Til að kynna okkur umræður skólafólks á Íslandi, á þeim árum sem við vorum nemendur hans, lásum við það sem þá var skrifað í tímaritið Menntamál. Við rannsóknina var beitt frásagnarrýni og afturblik notað við gagnaöflun og greiningu. Samræður okkar við Jón um kennsluhætti hans, minningabrot, gögn og myndir úr skólastarfinu lögðu grunninn að frásögninni. Jón Freyr kynnti sér hópvinnubrögð, leitarnám, vinnubókargerð og námstækni og lagði áherslu á samvinnu og samkennd nemenda sinna. Kennsluhættir hans voru framsæknir og sýn hans á skólastarfið og vinnu með nemendum lögðu grunninn að sterkum félagslegum tengslum bekkjarfélaganna.

Um höfund (biographies)

Hafdís Guðjónsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Hafdís Guðjónsdóttir (hafdgud@hi.is) er prófessor emerita en hún starfaði áður við Kennaraháskóla Íslands og síðan Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Á fyrri hluta starfsferilsins starfaði hún sem kennari við grunnskóla í Reykjavík og Hafnarfirði og sinnti bæði bekkjar- og sérkennslu. Rannsóknir hennar byggjast aðallega á eigindlegum rannsóknum, starfstengdri sjálfsrýni og starfendarannsóknum. Í rannsóknum sínum leggur hún áherslu á menntun án aðgreiningar, fjölmenningarlega kennslu, kennslufræði, starfsþróun kennara og fagmennsku, en einnig á kennaramenntun og þróun kennaramenntenda. Hún hefur birt fjölda greina og kafla en einnig hefur hún verið ritstjóri tveggja tímarita: Tímarit um uppeldi menntun og Teaching and Teacher Education

Jónína Vala Kristinsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Jónína Vala Kristinsdóttir (joninav@hi.is) er fyrrverandi dósent í stærðfræðimenntun við deild kennslu- og menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk bakkalárprófi frá Kennaraháskóla Íslands 1975, meistaraprófi frá sömu stofnun árið 2003, doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2016 og prófi í uppeldisfræði frá Uppsalaháskóla 1983. Hún var bekkjarkennari og æfingakennari við Æfingaskóla Kennaraháskóla Íslands í 20 ár. Jónína hefur skrifað námsefni í stærðfræði fyrir miðstig grunnskóla, unnið að námskrárgerð í stærðfræði og kennt á fjölmörgum námskeiðum fyrir kennara auk kennslu í grunn- og framhaldsnámi kennara um stærðfræðimenntun. Rannsóknarsvið hennar tengist stærðfræðinámi og -kennslu í skóla fyrir alla, starfstengdri sjálfsrýni og samvinnurannsóknum með kennurum.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31