Þróun eigin fagmennsku í skapandi starfi: Starfendarannsókn í leikskóla

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2022.11

Lykilorð:

starfendarannsókn, sköpun, flæði, dagskipulag leikskóla, hlutverk leikskólakennara, þróun fagmennsku

Útdráttur

Sköpun er mikilvæg þroska barna og er jafnframt einn grunnþáttur menntunar á Íslandi. Leikskólar sem horfa til starfsaðferða Reggio Emilia leggja áherslu á börn sem getumikla og skapandi einstaklinga. Þegar skólinn leggur rækt við meðfædda hæfileika þeirra eru allar líkur á að börnum finnist þau geta haft áhrif á samfélagið. Hlutverk kennara í skapandi skólastarfi felst í að skapa aðstæður sem styðja við skapandi hugsun og verkefni með áherslu á ferli umfram endanlega útkomu. Hér er sagt frá starfendarannsókn leikskólakennara sem rýndi í eigin starfshætti með áherslu á aukið vægi skapandi starfs á einni deild í leikskóla. Gagnaöflun hófst í janúar 2018 og lauk í október sama ár. Gagna var aflað með skrifum í rannsóknardagbók, með vettvangsathugunum og ljósmyndum. Gögnin voru greind reglulega og sem heild í lokin. Niðurstöðurnar voru flokkaðar í eftirfarandi flokka: Tækifærin í umhverfinu, kaflaskil og faglegt sjálfstraust. Meginþættir hvers kafla eru kynntir með dæmum úr rannsóknardagbók. Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á mikilvægi þess að leikskólakennari beiti virkri hlustun í starfi og að gagnkvæm virðing ríki milli kennara og barna. Ein sterkustu skilaboðin sem þessi rannsókn felur í sér eru hversu mikils virði er fyrir faglega vinnu kennara að gera starfendarannsókn og gera breytingar á eigin starfsháttum.

Um höfund (biographies)

Ásta Möller Sívertsen

Ásta Möller Sívertsen (astamoller@gmail.com) er leikskólakennari og starfar í leikskólanum Mánahvoli. Ásta útskrifaðist með M.Ed.-gráðu í menntunarfræði leikskóla vorið 2019 frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Ásta lauk viðbótardiplómu á meistarastigi í menntunarfræði leik- og grunnskóla, með áherslu á menntun án aðgreiningar frá Háskóla Íslands sumarið 2022. Ásta er einnig með BA-gráðu í þýsku frá Háskóla Íslands.

Svanborg Rannveig Jónsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Svanborg Rannveig Jónsdóttir (svanjons@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1978 með íslensku og dönsku sem aðalgreinar. Hún lauk M.A.-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands 2005 með áherslu á nýsköpunarmennt. Árið 2011 lauk hún doktorsnámi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og er titill doktorsritgerðar hennar The location of innovation education in Icelandic compulsory schools. Rannsóknir hennar snúast um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt, námskrárfræði, skapandi skólastarf, breytingastarf og starfstengda sjálfsrýni í kennaramenntun.

Hafdís Guðjónsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Hafdís Guðjónsdóttir (hafdgud@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Áður en hún hóf störf þar kenndi hún í 26 ár við grunnskóla og sinnti bæði bekkjar- og sérkennslu. Rannsóknir hennar byggjast aðallega á eigindlegum rannsóknum, starfstengdri sjálfsrýni og starfendarannsóknum. Í rannsóknum sínum leggur hún áherslu á menntun án aðgreiningar, fjölmenningarlega kennslu, kennslufræði, starfsþróun kennara og fagmennsku, en einnig á kennaramenntun og þróun kennaramenntunarkennara.

Niðurhal

Útgefið

2022-09-27

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)