Menntaumbætur og afdrif þeirra : Fyrstu tíu ár heildstæðrar þjónustu og reksturs grunnskóla hjá Reykjavíkurborg 1996–2005

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2022.70

Lykilorð:

grunnskóli, stefnumótun, menntaumbætur, dreifstýring, mat á skólastarfi

Útdráttur

Stefnumörkun og umbótaverkefni á vegum opinberra aðila til að efla og bæta skólastarf eru hluti af þróun skóla og skólakerfa um allan heim. Ítarlegar samtímalýsingar á innleiðingu slíkra verkefna liggja aftur á móti ekki alltaf á lausu og lítið er um greiningar eða mat á afdrifum þeirra eða áhrifum.

Í þessu riti er sjónum beint að menntaumbótum hjá Reykjavíkurborg og afdrifum þeirra í kjölfar tímamóta í sögu grunnskóla hér á landi þegar þjónusta við þá og rekstur fluttist frá ríki til sveitarfélaga samkvæmt grunnskólalögum frá árinu 1995. Markmiðið er að a) draga upp mynd af umbótamiðuðum aðgerðum sem ráðist var í fyrstu tíu ár heildstæðrar þjónustu og reksturs grunnskóla hjá Reykjavíkurborg árin 1996–2005, með áherslu á stefnumótun, undirbyggingu einstakra stefnumiða og innleiðingu þeirra, en jafnframt innbyrðis samvirkni; b) varpa ljósi á afdrif aðgerðanna á vettvangi skólanna með hliðsjón af niðurstöðum rannsókna og öðrum upplýsingum frá síðustu tveimur áratugum.

Til skoðunar voru umbætur á sviði fimm megináhersluþátta í framtíðarsýn borgarinnar en þeir voru: Einstaklingsmiðað nám og samvinna nemenda, skóli án aðgreiningar, sterk sjálfsmynd nemenda og félagsfærni, náin tengsl skóla og grenndarsamfélags, þar með talið foreldrasamstarf, og loks sjálfstæði skóla og jafnræði í umgjörð þeirra, meðal annars skólastjórnun og uppbygging og skipulag skólahúsnæðis. Stuðst er við heimildir frá þessum tíma, og vísað eftir atvikum í fræðilegt og sögulegt samhengi og alþjóðlega umræðu. Þá eru afdrif aðgerðanna skoðuð í ljósi þátta sem fræðimenn hafa talið stuðla að farsælli framkvæmd menntaumbóta yfirvalda.

Niðurstöður benda til að áherslur í stefnunni sem snertu ytri umgjörð skólastarfs séu enn við lýði, svo sem einsetnir grunnskólar, breytt hönnun húsnæðis og nemendamötuneyti. Sama á við um sjálfstæði skóla þar sem áhersla var á nemendamiðaðar rammafjárveitingar, mannauðsráðgjöf og fjölgun starfsstétta í skólunum, svo sem námsráðgjafa, skólaliða og millistjórnenda. Kall grunnskólakennara eftir faglegri forystu skólastjórnenda bendir til að áhersla á leiðtogahlutverk stjórnenda hafi ekki náð fullri fótfestu. Aftur á móti voru áhrifin af stefnu um nám og kennslu undir merkjum einstaklingsmiðaðs náms, þar með talinn skóli án aðgreiningar, meiri í orði en á borði. Þrátt fyrir áherslu á víðtækt samstarf og margvíslegan stuðning með símenntun og ráðgjöf náði hún ekki að festa rætur í daglegu skólastarfi þótt hugtakið lifi góðu lífi í opinberri umræðu. Niðurstöður á þessu sviði studdu kenningar um sífellda endurtekningu eldri hugmynda og íhaldssemi í kerfinu. Tengsl skóla og nærsamfélags sýndust laus í reipunum. Sjálfsmynd nemenda og þættir tengdir henni eru enn í brennidepli og stöðugt kannaðir, en erfitt er að meta þróun í þeim efnum. Á heildina litið virðist sú stefnumörkun og umbótaaðgerðir sem ráðist var í á tímabilinu sem hér er til skoðunar engu að síður hafa einkennst af flestum þáttum sem fræðimenn hafa talið farsæla: Áhersla var á nám og kennslu, faglega forystu skólastjórnenda, jöfnuð í umgjörð skólastarfs, víðtækt samstarf, samvirkni áhersluþátta og nýtingu hlutlægra upplýsinga og rannsókna.

Um höfund (biographies)

Anna Kristín Sigurðardóttir, Háskóli Íslands

Anna Kristín Sigurðardóttir (aks@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og ábyrgðarmaður Rannsóknarstofu um þróun skólastarfs. Hún lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Exeter 2006 á sviði skólaþróunar og forystu. Rannsóknarsvið hennar tengjast menntaumbótum, lærdómssamfélagi og námsumhverfi skóla í tengslum við nám og kennslu. Anna Kristín hefur unnið við kennslu og ráðgjöf og var á árunum 1996–2007 deildarstjóri kennsludeildar á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, aðstoðarmaður fræðslustjóra og síðar skrifstofustjóri skólaskrifstofu Menntsviðs Reykjavíkurborgar.

Gerður G. Óskarsdóttir

Gerður G. Óskarsdóttir (gerdurgo@simnet.is) er sjálfstætt starfandi fræðimaður. Hún hefur starfað sem kennari og stjórnandi á grunn-, framhalds- og háskólastigi og verið ráðunautur menntamálaráðherra og yfirmaður leik- og grunnskóla hjá Reykjavíkurborg. Gerður lauk doktorsprófi í menntunarfræði frá Kaliforníuháskóla, Berkeley árið 1994. Rannsóknarsvið hennar hafa verið kennsluhættir, tengsl skóla og atvinnulífs, brotthvarf úr skóla og skil skólastiga. Gerður var fræðslustjóri Reykjavíkur á árunum 1996–2005 og sviðsstjóri Menntasviðs Reykjavíkurborgar árin 2005–2007.

Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Háskóli Íslands

Guðbjörg Andrea Jónsdóttir (gudbjorg@hi.is) er forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í félagslegri sálfræði frá London School of Economics árið 2004. Guðbjörg var forstöðumaður þróunarsviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur á árunum 1996–2004. Rannsóknir hennar hafa einkum verið á sviði aðferðafræði spurningalistakannana en hún hefur stýrt fjölmörgum rannsóknum á sviði lífsgilda og viðhorfa, kynja- og launajafnréttis, starfsánægju, ánægju nemenda með nám á ýmsum skólastigum, námsárangurs og brotthvarfs úr skóla.

Ingunn Gísladóttir

Ingunn Gísladóttir (ingunn.gisladottir@gmail.com) var deildarstjóri launadeildar og síðan starfsmannastjóri Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur 1996–2005, en eftir það starfsmannastjóri Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar í sex ár. Hún var varaformaður samninganefndar Reykjavíkurborgar 2005–2011 og tók þátt í gerð kjarasamninga við aðildarfélög Kennarasambands Íslands 2005–2011 fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ingunn var áður kennari í grunn- og húsmæðraskóla. Hún starfaði auk þess á Fræðsluskrifstofu Norðurlands vestra, var verslunarstjóri um tíma og rak gistiheimili. Hún lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands 1971.

Steinunn Stefánsdóttir

Steinunn Stefánsdóttir (steinunnhelgustef@gmail.com) er sjálfstætt starfandi þýðandi, blaðamaður og yfirlesari en hefur áður starfað sem framhaldsskólakennari, blaðamaður, ritstjóri og landvörður. Hún lauk BA-prófi í almennum málvísindum og íslensku frá Háskóla Íslands ásamt námi til kennsluréttinda og stundar nú MA-nám í þýðingafræði. Steinunn var skrifstofustjóri á almennri skrifstofu Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur og upplýsingafulltrúi málaflokksins 1996–2000.

Niðurhal

Útgefið

2022-02-18