Efnahagshrunið og skólastarf í Reykjavík

Höfundar

  • Steinunn Helga Lárusdóttir
  • Anna Kristín Sigurðardóttir
  • Arna H. Jónsdóttir
  • Börkur Hansen
  • Guðný Guðbjörnsdóttir

Lykilorð:

skólakreppa, skólastarf, leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli

Útdráttur

Í þessari rannsókn voru könnuð áhrif efnahagshrunsins á Íslandi árið 2008 á skóla í Reykjavík. Gagnaöflun fór fram á árunum 2013 og 2014. Tekin voru viðtöl við einstaklinga og í rýnihópum. Rætt var við fulltrúa hjá Reykjavíkurborg og í menntaog menningarmálaráðuneyti, skólastjórnendur, kennara, foreldra og nemendur í völdum leik-, grunnog framhaldsskólum. Niðurstöður benda til þess að tekist hafi að vernda kjarnann í skólastarfinu fyrir niðurskurði en þó í meira mæli í grunnskólum en í leikog framhaldsskólum. Niðurskurðurinn olli því ekki skólakreppu í þeim skilningi að grunngildum skólanna væri ógnað. Öðru máli kann þó að gegna um leikskólana sem urðu fyrir þyngri áföllum en skólarnir á hinum skólastigunum. Þótt ekki kæmi til skólakreppu í framangreindum skilningi þá hafði niðurskurður margvísleg áhrif á skólastarfið. Stjórnunarstöðum fækkaði umtalsvert, einkum millistjórnendum, forfallakennsla var unnin af skólastjórnendum, annað starfsfólk var ráðið í hlutastörf og framlög til tómstundastarfs og námsog starfsráðgjafar skert. Yfirvinna starfsfólks var ekki leyfð, minna fé var veitt til samstarfs, bekkir urðu fjölmennari og dregið úr fjárveitingum til kaupa á efniviði og námsgögnum og til viðhalds tækja og húsa. Loks voru skólar á leikog grunnskólastigi sameinaðir. Fram kom að sú aðgerð hefði aukið mjög á þá erfiðleika sem af niðurskurðinum hlaust. Ekki voru nefnd dæmi um að fólk missti vinnuna þótt talsvert væri um uppsagnir, starfsmönnum var þá boðin vinna að nýju en stundum í skertu starfshlutfalli. Þótt viðmælendur teldu að ekki kæmi til frekari niðurskurðar sögðust þeir ekki vongóðir um bjartari tíma framundan. Að mörgu leyti voru áherslur hagsmunaaðila skóla í samræmi við ráðleggingar fræðimanna um fagleg viðbrögð við efnahagsþrenginum. Sú áhersla sem lögð var á að vernda nám og kennslu og standa vörð um velferð nemenda eru dæmi um slík viðbrögð. Á hinn bóginn komu upp mál þar sem bæði starfsmenn skóla og foreldrar kvörtuðu yfir þeim skorti á samráði sem yfirvöld hefðu viðhaft við ákvarðanir um mikilvæg málefni skólanna. Rannsóknin var unnin af fimm fræðimönnum Rannsóknarstofu í menntastjórnun, nýsköpun og matsfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Um höfund (biographies)

Steinunn Helga Lárusdóttir

Steinunn Helga Lárusdóttir (shl@hi.is) er dósent við uppeldis og menntunarfæðideild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1975, M.Ed.-prófi í menntastjórnun frá Háskólanum í Illinois, Urbana-Champain árið 1982 og doktorsprófi í stjórnun menntastofnana frá Lundúnaháskóla 2008. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að skólastjórnun, jafnrétti og kyngervi. Hún er forstöðumaður Rannsóknarstofu í menntastjórnun, nýsköpun og mati á skólastarfi. 

Anna Kristín Sigurðardóttir

Anna Kristín Sigurðardóttir (aks@hi.is) er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1981 og M.Ed.-prófi í sérkennslufræðum frá sama skóla árið 1996. Hún lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Exeter 2006 þar sem hún skrifaði um skólann sem lærdómssamfélag. Rannsóknarsvið hennar tengist meðal annars skólaþróun, skólabyggingum og stjórnun menntastofnana. 

Arna H. Jónsdóttir

Arna H. Jónsdóttir (arnahj@hi.is) er lektor á sviði leikskólafræða og menntastjórnunar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í menntunarfræðum frá Institute of Education, University of London árið 2012. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að fagmennsku og forystu leikskólakennara og stjórnenda í leikskólum. Hún er forstöðumaður Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna. 

Börkur Hansen

Börkur Hansen (borkur@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk B.A.-prófi í uppeldisog sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1982, meistaraprófi frá Háskólanum í Alberta í stjórnun menntastofnana 1984 og doktorsprófi frá sama skóla 1987. Rannsóknir hans hafa einkum beinst að skólastjórnun, skólaþróun og stjórnskipulagi skóla. 

Guðný Guðbjörnsdóttir

Guðný S. Guðbjörnsdóttir (gg@hi.is) er prófessor í uppeldis og menntunarfræði við uppeldis-og menntunarfræðideild Háskóla Íslands. Hún lauk B.A.prófi í sálfræði frá Vassar College í Bandaríkunum árið 1971, M.Sc.prófi í sálfræði frá University of Manchester 1974 og doktorsprófi (Ph.D.) í uppeldisog menntunarfræði frá University of Leeds, 1987. Rannsóknir hennar hafa einkum snúist um vitrænan þroska barna, um menningarlæsi og svokallað nýlæsi, og um menntun, kyngervi, jafnrétti og forystu. 

Niðurhal

Útgefið

2016-12-04

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar