Starfshættir í framhaldsskólum: Aðdragandi og framkvæmd rannsóknar 2012–2018

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.1

Lykilorð:

framhaldsskóli, skipulag rannsóknar, rannsóknarlíkan, rannsóknaraðferðir

Útdráttur

Rannsóknin Starfshættir í framhaldsskólum fór fram á árunum 2012–2018. Hún var samstarfsverkefni rúmlega 20 manna hóps rannsakenda, bæði kennara og nemenda við Menntavísinda- og Félagsvísindasvið Háskóla Íslands með aðsetur á Rannsóknastofu um þróun skólastarfs á Menntavísindasviði. Rannsóknin var hluti af norræna öndvegissetrinu Justice through Education (JustEd, e.d.) sem styrkt var af NordForsk. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á starfshætti í framhaldsskólum og þann bakgrunn og þau öfl sem móta þá. Athyglin beindist einkum að skipulagi og stjórnun skóla og skólastarfs, námi og kennslu, námsumhverfi og viðhorfum nemenda, kennara og stjórnenda til skólastarfsins. Gagna var aflað árin 2013–2014 í níu framhaldsskólum víða um land sem voru valdir með lagskiptu slembiúrtaki. Fyrir liggja vettvangslýsingar á 130 kennslustundum (167 klukkustundum), skráð viðtöl við stjórnendur, kennara og nemendur, alls 61 að tölu við samtals 100 manns, 111 sett ljósmynda úr mannlausum kennslurýmum og 90 náms- eða kennsluáætlanir, auk opinberra gagna sem safnað var. Í þessu sérriti eru birtar tíu greinar sem byggjast á fyrrnefndum gögnum. Auk þeirra eru þrjár greinar eftir þátttakendur í rannsóknarhópnum sem byggjast á öðrum gögnum, ein þeirra á rætur í rannsókninni Skilvirkni framhaldsskóla, en tvær eru hluti af rannsókninni Framhaldsskólaval í Reykjavík og Helsinki. Rannsóknarhópurinn væntir þess að niðurstöður verði nýttar við mótun og skipulag þróunarstarfs í framhaldsskólum, við stefnumótun og þróun skólakerfisins í heild og að þær gagnist við bæði grunn- og símenntun kennara. Ráðgjöf um nýtingu niðurstaðna í þróunarstarfi er hluti af verkefninu, ef skólar óska eftir.

Um höfund (biography)

Gerður G. Óskarsdóttir

Gerður G. Óskarsdóttir (gerdurgo@simnet.is) lauk doktorsprófi í menntunarfræði frá Kaliforníuháskóla í Berkeley 1994, meistaraprófi í námsráðgjöf frá Bostonháskóla 1981, BA-prófi frá Háskóla Íslands 1969 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1964. Gerður hefur starfað sem kennari og stjórnandi á grunn-, framhalds- og háskólastigi, ráðunautur menntamálaráðherra og yfirmaður leik- og grunnskóla Reykjavíkurborgar. Rannsóknir hennar hafa einkum snúist um brotthvarf, tengsl menntunar og starfs, náms- og starfsráðgjöf, kennsluhætti og skil skólastiga.

Niðurhal

Útgefið

2020-02-03

Tölublað

Kafli

Ritstýrðar greinar