Frumkvæði nemenda: Innlit í kennslustundir níu framhaldsskóla

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.6

Lykilorð:

frumkvæði, sköpun, kennsluhættir, frumkvæðiskvarði, framhaldsskóli

Útdráttur

Frumkvæði og sköpun nemenda eru áhersluþættir í íslenskum lögum og námskrá fyrir framhaldsskóla. Sömu áherslur má sjá í fjölþjóðlegri stefnumörkun í menntamálum. Gera má ráð fyrir að þær byggist á umfjöllun fræðimanna í nánast heila öld um mikilvægi þess að nemendur hafi eitthvað að segja um framkvæmd náms og kennslu, í stað þess að vera fyrst og fremst viðtakendur upplýsinga. Markmið greinarinnar er að varpa ljósi á tækifæri framhaldsskólanemenda til frumkvæðis við úrlausn viðfangsefna sem kennari leggur fyrir í kennslustundum, nánar tiltekið umfang þeirra og birtingarmynd. Byggt er á 130 vettvangslýsingum úr níu framhaldsskólum og viðtölum við 17 nemendahópa. Við greiningu gagna var stuðst við þriggja þrepa frumkvæðiskvarða: á fyrsta þrepi eru ekki tækifæri til frumkvæðis, á öðru er möguleiki á eða ætlast til einhvers frumkvæðis, en á því þriðja er frumkvæði nemenda og sköpun ráðandi. Tekið var saman umfang þess tíma sem nemendur unnu á hverju þrepi (mínútur taldar) og viðfangsefnum lýst. Meginniðurstöður leiddu í ljós að í 19% heildartímans fengust nemendur við viðfangsefni á 3. frumkvæðisþrepi (sköpun í gangi) og í 23% tímans á 2. þrepi. Alls tók 1. þrepið 58% heildartímans. Jafnframt voru möguleikar nemenda til frumkvæðis greindir í þremur flokkum kennsluhátta og ellefu námsgreinaflokkum. Frumkvæði í námi var nemendum almennt ekki ofarlega í huga. Niðurstöður gefa kennurum og skólastjórnendum tilefni til að ígrunda og endurskoða kennsluhætti í átt til meira frumkvæðis nemenda.

Um höfund (biography)

Gerður G. Óskarsdóttir

Gerður G. Óskarsdóttir (gerdurgo@simnet.is) lauk doktorsprófi í menntunarfræði frá Kaliforníuháskóla í Berkeley 1994, meistaraprófi í námsráðgjöf frá Bostonháskóla 1981, BA-prófi frá Háskóla Íslands 1969 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1964. Gerður hefur starfað sem kennari og stjórnandi á grunn-, framhalds- og háskólastigi, ráðunautur menntamálaráðherra og yfirmaður leik- og grunnskóla Reykjavíkurborgar. Rannsóknir hennar hafa einkum snúist um brotthvarf, tengsl menntunar og starfs, náms- og starfsráðgjöf, kennsluhætti og skil skólastiga.

Niðurhal

Útgefið

2020-02-03