Kynjað starfsumhverfi kvenkyns nýliða í grunnskólakennslu
##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/netla.2024/18Lykilorð:
nýbrautskráðir kennarar, kvenkyns kennarar, teymissamstarf, stuðningsfulltrúar, kyngerviÚtdráttur
Rannsóknin er um hvernig nýlega brautskráðum kvenkyns kennurum í grunnskólum vegnaði í starfinu fyrstu árin, að hvaða leyti starfsumhverfi þeirra var kynjað og kvenvætt, og hvað reyndist styðjandi og hvað krefjandi. Greinin er byggð á viðtölum við fjóra kvenkyns nýliða sem rætt var við þrisvar til fjórum sinnum, á eins til tveggja ára tímabili. Konurnar fjórar voru á aldrinum 27–32 ára haustið 2021 þegar fyrstu viðtölin fóru fram og höfðu frá engri starfsreynslu til þriggja ára í fullu starfi sem kennarar eða leiðbeinendur. Fáir karlar voru að störfum með ungu konunum og þannig unnu kvenkyns kennararnir hver með annarri í margvíslegu teymissamstarfi og með kvenkyns stuðningsfulltrúum – með frekar fáum undantekningum; skólarnir sem vinnustaðir voru að miklu leyti kvennavinnustaðir. Viðmælendum okkar fannst munur á væntingum og kröfum til stuðningsfulltrúa innan skólanna eftir kyni. Minni kröfur væru gerðar til karlkyns stuðningsfulltrúa og þá virtust þeir bera minni ábyrgð. Í stöku tilvikum fannst þeim sama viðhorf eiga við um karlkyns kennara. Þeir styðjandi og krefjandi þættir sem voru mest áberandi voru víðtækt teymissamstarf kennaranna og samstarf við stuðningsfulltrúa. Viðmælendur upplifðu að teymissamstarf, dreifing álags og stuðningur samkennara væru miklir kostir við að vinna í teymi. Teymissamstarfið hjálpaði kennurunum ungu við að komast inn í starfið og veittist mikilvægur stuðningur við nýliðana. Vinna með stuðningsfulltrúunum reyndist vera krefjandi þáttur á sama tíma og starf þeirra var nauðsynlegt. Í sumum tilvikum var hlutverk þeirra óljóst. Höfundar telja að gjarna megi formgera nýliðaleiðsögn í kennsluteymum og brýn þörf sé á að skýra betur hlutverk stuðningsfulltrúa.
Niðurhal
Útgefið
Tölublað
Kafli
Leyfi
Copyright (c) 2024 Aðalheiður Anna Erlingsdóttir, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Valgerður S. Bjarnadóttir

Greinar í tímaritinu eru gefnar út undir leyfinu (Creative Commons Attribution 4.0 International License).