Menntun eða þjónusta?

Þrástef og þversagnir í umfjöllun fjölmiðla um leikskóla

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2023.14

Lykilorð:

leikskólar, þroski barna, hlutverk leikskóla, jafnrétti, fjölmiðlar

Útdráttur

Mikil fjölmiðlaumræða varð um leikskóla á árunum 2020–2022. Þann 14. janúar 2020 samþykkti meirihluti skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar að stytta opnunartíma leikskóla um hálftíma síðdegis, hafa skólana opna til 16:30 í stað kl. 17. Við greindum umræðuna næstu 13 daga á eftir. Einnig voru greindir kosningapistlar fyrstu 13 dagana í maí 2022 fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí 2022. Samtals voru þetta 59 greinar, fréttir og pistlar. Leitað var svara við spurningunum: Hvað er leikskóli og til hvers er hann? Hvað er ætlast til að börn fái út úr leikskóladvöl?

Við greindum efnið með sex þrepa aðferð sögulegrar greiningar á orðræðu. Við greindum sex þrástef í efninu; álagið á börnin, álagið á starfsfólkið, þroski og leikur, jafnrétti, þjónustuhlutverk leikskóla og loks þema sem við nefnum skjótvirkar lausnir. Við greindum tvö löggildingarlögmál sem jafnframt fela í sér þversagnir. Hið fyrra felur í sér að leikskóli er menntastofnun sem um leið hefur samfélagsleg hlutverk, annars vegar til að stuðla að jafnrétti kynjanna og hins vegar sem þjónusta við atvinnulífið með því að sjá til þess að börnin séu á öruggum stað meðan foreldrarnir vinna. Þversögn felst í að ýmis ytri skilyrði hafa orðið til þess að leikskólunum er erfitt að sinna þessu verkefni, það er að börnin fái sveigjanlegt heils dags leikskólapláss. Hitt lögmálið er að flestir virðast vilja að leikskólar sem menntastofnanir séu ólíkir grunnskólum. Sókn í að stytta dvalartíma og stytta opnunartíma kemur ef til vill ekki niður á menntunarhlutverkinu en rekst á við jafnréttis- og þjónustuhlutverkið við foreldra og atvinnulíf.

Rannsóknin gefur skýrt til kynna að tekist er á um framtíð leikskólakerfisins á Íslandi. Höfundar undirstrika mikilvægi þess að uppbygging leikskólakerfisins taki mið af fjölþættum hlutverkum hans í íslensku samfélagi, þar sem virðing er borin fyrir þeim öllum.

Um höfund (biographies)

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (ingo@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk BA-prófi 1979 og cand.mag.-prófi 1983 í sagnfræði auk kennslufræði til kennsluréttinda 1980, öllu frá Háskóla Íslands og doktorsprófi í menntunarfræðum frá Wisconsin-háskóla í Madison 1991. Hann hefur sérhæft sig í rannsóknum á menntastefnu, kennarastarfinu og kyngervi og menntun.

Sunna Símonardóttir, Háskóli Íslands - Félagsvísindasvið

Sunna Símonardóttir (sunnaks@hi.is) er nýdoktor og aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í bókmennta- og kynjafræði 2005 frá Háskóla Íslands, meistaraprófi í kynjafræði frá University of Leeds 2009 og doktorsprófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands 2017. Hún hefur sérhæft sig í rannsóknum á foreldrahlutverkinu, kyngervi og fæðingartíðni. Hún stýrir nú, með öðrum, rannsóknarverkefninu Áhrif stefnumótunar og foreldramenningar á barneignir á Íslandi.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)