Málnotkun fjöltyngdra nemenda og tengsl við mat þeirra á eigin íslenskufærni
##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/netla.2024/11Lykilorð:
læsi, málnotkun, heimalestur, fjöltyngdir nemendur, skólaþróun, íslenska sem annað málÚtdráttur
Markmið rannsóknarinnar voru að afla upplýsinga um hvernig fjöltyngdir nemendur í 6.–10. bekk Fellaskóla nota íslensku, ensku og móðurmál, hvernig þau meta færni sína í tungumálunum og hvort tengsl séu á milli málnotkunar og mats þeirra á íslenskufærni sinni. Hvatinn að rannsókninni var að afla upplýsinga svo skipuleggja megi markvissari kennslu og stuðning við fjöltyngda nemendur skólans til eflingar læsisfærni þeirra í íslensku. Tekin voru einstaklingsviðtöl við 78 fjöltyngda nemendur vorið 2022 en það voru 54% af fjöltyngdum nemendum í 6.–10. bekk skólans og um 43% af heildarfjölda nemenda þessara árganga. Helstu niðurstöður eru að íslenska var megintungumálið sem notað var í kennslustundum, en nemendur notuðu bæði íslensku og ensku í frímínútum og aðallega ensku við lestur á netinu. Tæpur helmingur nemenda las fimm sinnum eða oftar heima á viku og ríflegur helmingur á íslensku. Rétt um 85% nemenda fannst mikilvægt eða mjög mikilvægt að læra íslensku, 82% ensku og 73% móðurmál. Langflest töldu sig skilja (81%), tala (77%), lesa (73%) og skrifa (77%) ensku vel eða mjög vel, en lægra hlutfall taldi sig skilja (69%), tala (63%), lesa (69%) og skrifa (60%) íslensku vel eða mjög vel. Þau sem töluðu íslensku heima mátu sig marktækt með meiri skilning á íslensku en hin. Þau sem lásu á íslensku heima mátu færni sína í að skrifa íslensku marktækt betur en hin. Því oftar sem nemendur lásu heima því betur mátu þau færni sína í að tala íslensku. Hagnýting niðurstaðna er tvíþætt. Annars vegar að auka þurfi heimalestur og hann fari fram á íslensku. Hins vegar að mat fjöltyngdu nemendanna á íslenskufærni sinni er líklega ofmat. Því er áríðandi að virða rétt nemenda á raunsærri endurgjöf um stöðu sína og framfarir í náminu og skipuleggja kennsluna í ljósi þarfa hvers og eins.
Niðurhal
Útgefið
Tölublað
Kafli
Leyfi
Copyright (c) 2024 Auður Pálsdóttir; Sigríður Ólafsdóttir; Örn Þór Karlsson
Greinar í tímaritinu eru gefnar út undir leyfinu (Creative Commons Attribution 4.0 International License).