Orðaforði og lesskilningur hjá börnum með íslensku sem annað mál - Áhrif aldurs við komuna til Íslands

Höfundar

  • Sigríður Ólafsdóttir
  • Freyja Birgisdóttir
  • Hrafnhildur Ragnarsdóttir
  • Steingrímur Skúlason

Lykilorð:

orðaforði, lesskilningur, læsi, tvítyngi, aldur

Útdráttur

Rannsóknin er hluti doktorsrannsóknar fyrsta höfundar (Sigríður Ólafsdóttir, 2015) sem hafði þann megintilgang að bera saman hversu hratt orðaforði eykst og lesskilningur eflist hjá börnum sem hafa íslensku sem annað tungumál (ísl2) og hjá jafnöldrum sem eiga íslensku að móðurmáli (ísl1) frá fjórða bekk til áttunda bekkjar grunnskólans. Einnig voru skoðuð áhrif orðaforða í fjórða bekk á hraða framfara barnanna í lesskilningi yfir rannsóknartímann. Þá var rannsókninni ætlað að kanna áhrif aldurs við flutning til Íslands á hraða þróunar hjá börnunum í þessum mikilvægu færniþáttum. Tveir aldurshópar ísl2-barna sem komu á mismunandi aldri til landsins voru prófaðir þrisvar. Sá yngri var prófaður í fjórða, fimmta og sjötta bekk og sá eldri í sjötta, sjöunda og áttunda bekk. Orðaforða- og lesskilningspróf voru lögð fyrir í öll skiptin. Samanburðarhópur ísl1-jafnaldra var prófaður samtímis. Gögn voru greind með þróunarlíkani sem gerir kleift að rekja samfellda þróun orðaforða og lesskilnings frá fjórða bekk til áttunda bekkjar. Niðurstöður leiddu í ljós að ísl2-börnin höfðu minni orðaforða en samanburðarhópurinn í upphafi og að bilið breikkaði yfir rannsóknartímann. Hins vegar hélst forskot ísl1-hópsins í lesskilningi jafnt öll árin. Íslenskur orðaforði ísl2- og ísl1-barna í fjórða bekk spáði fyrir um hraða framfara þeirra í lesskilningi og leiðir í ljós vaxandi mun á lesskilningi barna með hverju ári miðað við stærð orðaforða þeirra við upphaf miðstigs. Aldur ísl2-barnanna við komuna til landsins hafði jákvæð áhrif á þróun orðaforða þeirra og lesskilning þannig að því eldri sem nemendurnir voru, þeim mun hraðari voru framfarir þeirra á rannsóknartímanum. Niðurstöður sýna að íslenskur orðaforði er mikilvæg forsenda framfara í lesskilningi og þar með lykill að velgengni í námi í íslenskum skólum fyrir bæði ísl2- og ísl1-börn. Þær benda eindregið til þess að meiri og markvissari aðgerða sé þörf til að auka íslenskan orðaforða ísl2-barna og að jafnvel ísl2-börn sem hafa dvalið hér lengst þurfi stuðning.

Um höfund (biographies)

Sigríður Ólafsdóttir

Sigríður Ólafsdóttir (sol@hi.is) er með doktorspróf í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands. Hún lauk BA-gráðu í frönsku og síðan MA-prófi með verkefninu Íslenskur orðaforði íslenskra grunnskólanema sem eiga annað móðurmál en íslensku. Hún er nú aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Meginrannsóknarsvið hennar er þróun orðaforða, lesskilnings og ritunarfærni barna í öðru tungumáli. 

Freyja Birgisdóttir

Freyja Birgisdóttir (freybi@hi.is) er með doktorspróf í sálfræði frá Oxfordháskóla og er nú dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Meginrannsóknarsvið hennar er þróun máls og læsis á leik- og grunnskólaaldri og hvernig sú þróun tengist öðrum hliðum þroska. 

Hrafnhildur Ragnarsdóttir

Hrafnhildur Ragnarsdóttir (hragnars@hi.is) er prófessor í þroskavísindum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi barna og unglinga. Hún lauk doktorsprófi í sálfræði og menntavísindum frá Université d´Aix-Marseille 1990. Rannsóknarsvið hennar eru málþroski barna og þróun málnotkunar og textagerðar í ræðu og riti frá frumbernsku til fullorðinsára og tengsl málþroska og málnotkunar við aðra þroskaþætti og læsi. 

Steingrímur Skúlason

Sigurgrímur Skúlason (sigurgrimur.skulason@mms.is) er próffræðingur hjá Menntamálastofnun. Hann lauk BA gráðu í sálfræði frá Háskóla íslands og lauk síðan meistaragráðu í próffræði og tölfræði og doktorsnámi í próffræði og matsfræðum frá University of Iowa í Bandaríkjunum. Helstu verkefni og rannsóknir Sigurgríms hafa verið á sviði prófagerðar og úrvinnslu á niðurstöðum prófa. Auk starfa sinna hjá Menntamálastofnun hefur Sigurgrímur kennt prófafræði við þrjá háskóla á Íslandi. 

Niðurhal

Útgefið

2024-01-12

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar