„Ég held að þetta hafi gefið okkur hugrekki til að láta í okkur heyra“ Um frumkvæði nokkurra ungmenna að breytingum á námskrá og menntun í grunnskóla

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2022.7

Lykilorð:

raddir nemenda, samfélagsleg virkni, námskrár, fullorðinshyggja

Útdráttur

Lögð er áhersla á að börn og ungmenni láti til sín taka og hafi áhrif á samfélag sitt. Í þessari grein er fjallað um niðurstöður rannsóknar á frumkvæði nokkurra ungmenna að stofnun félagsins Menntakerfið okkar og þær tillögur að breytingum á námskrá sem félagið hefur staðið fyrir. Varpað er ljósi á tilurð, markmið og tilgang félagsins og hvaða áhrif frumkvæðið hefur í ljósi kenninga um mikilvægi samfélagslegrar virkni ungmenna. Einnig er gerð grein fyrir viðbrögðum fullorðinna og jafningja við tillögum þeirra og hvort þar megi greina birtingarmyndir fullorðinshyggju. Byggt er á fyrirliggjandi upplýsingum um félagið, fjölmiðlaumfjöllun um aðgerðir þess og viðtölum við stjórnarmenn, skólastjórnendur og sviðsstjóra hjá Hafnarfjarðarbæ. Helstu niðurstöður sýna að börn og ungmenni geta átt frumkvæði að breytingum með tillögum og aðgerðum og verið öðrum góð fyrirmynd í samfélagslegri virkni. Frumkvæði stjórnar félagsins Menntakerfið okkar og tillögum að breytingum var víða vel tekið, fjallað um þær í ýmsum fjölmiðlum og stjórnin kölluð til ráðgjafar af yfirvöldum sveitarfélaga og ríkis. Má meðal annars greina áherslur félagsins í menntastefnu til ársins 2030. Viðbrögðin voru þó ekki á einn veg og mætti frumkvæðið einnig neikvæðni jafningja á samfélagsmiðlum og hjá kennurum sem töldu að skilja mætti á málflutningi stjórnar félagsins að það væri ekki verið að kenna öll fög í skólanum og að kennararnir kenndu ekki það sem þeir ættu að kenna. Mikilvæg viðbrögð fullorðinna við frumkvæði ungmenna er að styðja við þau og sýna þeim fram á að þau geti verið virk í samfélaginu og tekið þátt í að móta það.

Um höfund (biography)

Anna Magnea Hreinsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Anna Magnea Hreinsdóttir (amh@hi.is) lauk námi í tómstundafræðum frá Göteborgs folkhögskola í Svíþjóð árið 1980, B.Ed.-gráðu í leikskólafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999 og meistaraprófi frá sama skóla árið 2003. Árið 2009 lauk hún doktorsprófi í menntunarfræðum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands með áherslu á lýðræðislegt umræðumat á skólastarfi. Hún vann sem leikskólastjóri og leikskólafulltrúi á árunum 1991–2015 og var sviðsstjóri fjölskyldusviðs Borgarbyggðar á árunum 2015–2020. Nú starfar hún sem aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

2022-08-08

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar