„Þetta þarf að virka hratt og örugglega“: Áskoranir við að þróa aðferðir sem meta nám og vellíðan barna í leikskóla
##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.4Lykilorð:
leikskólastarf, mat, skráningar, nám, vellíðanÚtdráttur
Greinin fjallar um ferli starfendarannsóknar í einum af fimm leikskólum, á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur, sem tóku þátt í samstarfsrannsókn sem var samvinnuverkefni við Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng). Þátttakendur í þessum hluta rannsóknarinnar voru þrír starfsmenn á elstu deild leikskólans ásamt leikskólastjóra. Markmið hennar var að þróa aðferðir sem meta nám og vellíðan barna í leikskólanum. Farin var sú leið að skrá námssögur eða gera uppeldisfræðilegar skráningar sem eru matsaðferðir sem beina sjónum að getu, hæfni og áhuga hvers barns, eins og Aðalnámskrá leikskóla (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2012) kveður á um að eigi að framkvæma. Einnig var varpað ljósi á hugmyndir starfsfólksins um mat, hvernig mat í leikskólastarfi ætti að fara fram og hvað væri mikilvægt að meta. Gagna var aflað með einstaklingsviðtölum og reglulegum fundum í formi hópsamtala yfir eitt skólaár þar sem uppeldisfræðilegar skráningar voru gjarnan notaðar til umræðu.
Niðurstöður leiddu í ljós að þátttakendur töldu að félagsfærni og góð samskiptafærni ættu að vera helstu áherslur í námi leikskólabarna. Þær matsaðferðir, sem nýttar voru í leikskólastarfinu, beindust hins vegar að því að meta þætti eins og málþroska barna. Áskoranir við að innleiða skráningar í leikskólastarfið voru töluverðar. Þátttakendur upplifðu að skipulag skráninganna væri óljóst, til dæmis varðandi hvað ætti að koma fram í skráningunni og hvernig framsetning hennar ætti að vera. Þeir upplifðu einnig tímaskort til að skrá og ígrunda saman. Þátttakendur töluðu um að skráning af athöfnum barnanna væri enn eitt verkefnið sem bættist í amstur dagsins en erfiðlega gekk að gera skráningar að daglegum hluta leikskólastarfsins. Fáar skráningar voru gerðar í rannsóknarferlinu en áhrif þátttökunnar á starfsfólk voru meira í formi hugarfars- og viðhorfsbreytinga gagnvart börnum og mati á námi og líðan þeirra. Niðurstöður benda til þess að þörf sé á viðhorfsbreytingu gagnvart aðferðum til að meta nám og vellíðan barna ef takast á að uppfylla þau skilyrði sem Aðalnámskrá leikskóla (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2012) setur.