Reynsla stjórnenda félagsmiðstöðva og frístundaheimila á tímum samkomubanns vegna COVID-19 vorið 2020

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.15

Lykilorð:

frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, samkomubann, líðan barna og ungmenna, félagsleg einangrun

Útdráttur

Í þessari grein er fjallað um hvaða áhrif samkomubann vegna COVID-19 hafði á starfsemi og þjónustu frístundaheimila og félagsmiðstöðva á Íslandi vorið 2020. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á viðhorf og reynslu stjórnenda af áhrifum samkomubanns á frístundastarf. Rafræn könnun fór fram 27. apríl til 26. maí 2020. Könnunin var send á netföng stjórnenda í frístundastarfi á höfuðborgarsvæðinu og á netföng alls starfsfólks grunnskóla á landinu. Svör 117 stjórnenda í frístundastarfi bárust, þar af voru stjórnendur frístundaheimila (N=69) og stjórnendur félagsmiðstöðva (N=48). Meirihluti svarenda starfaði á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður sýndu að starfsumhverfi félagsmiðstöðva og frístundaheimila á þessu tímabili var umtalsvert ólíkt. Þannig lá starfsemi flestra félagsmiðstöðva niðri að verulegu leyti þegar stjórnendum var gert að loka vegna samkomubanns, á meðan flest frístundaheimili tóku á móti börnum allan þennan tíma. Verulega dró þó úr mætingu barna á frístundaheimili og var rík áhersla lögð á vinnu með fámennari hópa og sóttvarnahólf. Stjórnendur frístundastarfs lögðu sig fram um að sýna sveigjanleika og frumkvæði til að viðhalda starfsemi fyrir börn og ungmenni. Engu að síður vekur áhyggjur að erfiðar gekk að virkja börn af erlendum uppruna til þátttöku á tímum samkomubanns. Mikilvægt er að þróa leiðir til að ná betur til ungmenna af erlendu bergi brotnu og ungmenna sem eru félagslega einangruð. Stjórnvöld verða að huga að leiðum til að stuðla að aðgengi barna og ungmenna að öflugu og vel skipulögðu frístundastarfi á tímum heimsfaraldurs. Veita þarf stjórnendum og starfsfólki frístundastarfs aukinn faglegan og hagnýtan stuðning.

Um höfund (biographies)

Kolbrún Þ. Pálsdóttir

Kolbrún Þ. Pálsdóttir (kolbrunp@hi.is) er dósent og forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í heimspeki 1997, MA-gráðu í menntunarfræðum 2001 og PhD-gráðu í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands árið 2012. Rannsóknarsvið hennar eru meðal annars frístundaheimili, formleg og óformleg menntun, virk þátttaka og sjónarhorn barna.

Ársæll Már Arnarsson

Ársæll Már Arnarsson (arsaell@hi.is) er prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk BA-prófi í sálfræði 1993, MS-gráðu í heilbrigðisvísindum 1997 og PhD-gráðu í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands árið 2009. Síðastliðinn áratug hafa rannsóknir hans aðallega snúið að heilsufari og líðan unglinga.

Steingerður Krisjánsdóttir

Steingerður Kristjánsdóttir (steingek@hi.is) er aðjúnkt í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1996 og MA-gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands árið 2013. Steingerður starfaði sem verkefnisstjóri barnastarfs, fyrst hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og síðar Skóla- og frístundasviði á árunum 2002–2015. Rannsóknarsvið hennar eru meðal annars frístundaheimili, leikur barna og óformleg menntun.

Niðurhal

Útgefið

2021-02-18